Erlent

Verður vörpudrifið að veruleika?

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Eðlisfræðingar hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA kynntu í vikunni hugmyndir sýnar um hönnun á geimferjunni Enterprise. Þó svo að hugmyndin sé enn á algjöru frumstigi eru vonir bundnar við að skipið ferji hetjulega áhöfn geimfara um alheiminn, rétt eins og forveri þess gerði á sjónvarpsskjánum.

Alheimurinn er ógnarstór. Í raun svo stór að hefðbundnar geimflaugar munu aldrei ferja mannkyn milli stjarnanna. Þetta var ekki áhyggjuefni áhafnar Enterprise geimfarsins í Star Trek söguheiminum. Með hjálp vörpudrifsins voru víðáttur alheimsins í seilingarfjarlægð. En, vísindaskáldskapur og raunheimur mætast nú enn og aftur.

Hópur eðlisfræðinga og verkfræðinga hefur unnið að því að betrumbæta fyrri kenningar um vörpuhraðan og hefur nú kynnt hugmyndir sínar um nýtt geimfar sem nýtir sér gloppu í almennu afstæðiskenningu Einsteins.

Í grunnin snýst vörpudrifið um að geimfar geti farið á svig við lögmál eðlisfræðinnar, sveigt tímarúmið og brunað milli himintunglanna á þrjú hundruð þúsund kílómetra hraða á sekúndu eða ögn hraðar en ljóshraði.

Áður fyrr höfðu vísindamenn reiknað út að það þyrfti samanlagða orku allra efnisagna Júpíters til að knýjaa slíkt drif en nú sjá menn fram á að rúmlega sjö hundruð kíló af framandi efni geti framkallað vörpuhraða.

Doktor Harold White hefur leitt þessa rannsóknarvinnu hjá NASA en hann kynnti í vikunni uppkast að geimfari sem byggir á vörputækni. Hann skýrði það IXS Enterprise og hér er ekki að finna neinar hraðatakmarkanir.

„Það er rétt að hugsa um þetta eins og þegar maður er á flugvelli og fer á milli flugstöðvarbygginga. Þar eru færibönd sem maður getur stigið á og þau hjálpa manni að fara hraðar yfir en maður annars gerði,“ segir Harold.

„Maður gengur kannski á fimm kílómetra hraða og stígur á færibandið og gengur áfram á fimm kílómetra hraða miðað við næsta umhverfi sitt, en fyrir einhverjum sem situr í stól virðist hraði manns hafa aukist. Því færibandið fjarlægir svæði fyrir framan mann og setur það fyrir aftan mann.“

Rannsóknarvinnan er þó stutt á veg komin og er sem stendur á hinu viðkvæma tilgátustigi NASA. Stofnunin ítrekar að engar sannanir séu fyrir hendi um að tæknin virki. Þó svo að vörpudrif Harolds White brjóti ekki lögmál eðlisfræðinnar og að stærðfræðin sé til staðar, er það ekki sjálfgefið að það virki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×