Körfubolti

Stólarnir styrkja sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Darrel Lewis leikur með Tindastóli á næstu leiktíð.
Darrel Lewis leikur með Tindastóli á næstu leiktíð. Vísir/Stefán

Nýliðar Tindastóls í Domino's deild karla hafa fengið góðan liðsstyrk fyrir átök næsta vetrar, en Darrel Lewis hefur gengið til liðs við Stólana frá Keflavík.

Þetta kemur fram á heimasíðu Tindastóls, en þar segir m.a. að stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls telji að "Darrel Lewis sé sá leikmaður sem liðið þarfnist fyrir átök vetrarins og geti hjálpað okkar liði í að ná árangri."

Lewis, sem er 38 ára, skoraði 19 stig, tók sex fráköst og gaf 3,2 stoðsendingar að meðaltali í leik með Keflavík á nýafstöðnu tímabili.

Lewis kom fyrst til Íslands fyrir rúmum áratug. Hann lék með Grindavík 2002-2005, en á þessum þremur árum skoraði hann að meðaltali 26,6 stig í leik, tók 7,5 fráköst og gaf 5,5 stoðsendingar.

Eftir að hafa spilað á Ítalíu og í Grikklandi kom Lewis aftur til Íslands sumarið 2012 og gekk í raðir Keflavíkinga.

Lewis, sem lék með liði Lincoln háskólans í Pennsylvaníu á árunum 1996-1999, fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember 2004. Hann lék fjóra leiki með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Andorra 2005 og skoraði í þeim 28 stig, eða sjö stig að meðaltali í leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.