Skoðun

Seltjarnarnes unga fólksins

Magnús Örn Guðmundsson skrifar
Það er varla hægt að hugsa sér betri uppeldisstað en Seltjarnarnes. Það er mikil viðurkenning fyrir sveitarfélagið, og þar með sjálfstæðismenn, að ungir Seltirningar vilji búa hér áfram og tryggja börnum sínum þau lífsgæði sem bærinn býður uppá.

Góðir skólar og öflugt íþróttastarf eru lykilþættirnir í að hér er gott að ala upp börn. Staðsetning gerir það að verkum að börn ferðast stutta vegalengd í skóla, íþróttir og annað tómstundastarf. Vel skipulagt skólastarf og samstarf við Gróttu gerir daginn samfelldan með tilheyrandi þægindum fyrir börn og foreldra.

Um 17% af rekstri bæjarins fara í íþrótta- og tómstundamál og yfir 50% fara í fræðslumál árið 2014. Fá bæjarfélög geta státað af slíkum myndarskap. En þetta er ekki sjálfgefið. Seltjarnarnesbær skuldar lítið í samanburði við önnur sveitarfélög. Skynsamur rekstur og lágar skuldir eru forsenda árangurs.

Undir forystu sjálfstæðismanna hefur bærinn staðið dyggilega við barna- og unglingastarf Gróttu og það mikla sjálfboðastarf sem þar er unnið af foreldrum. Niðurstaðan er öflug forvörn og sterkari einstaklingar.

Ungt fólk kann vel að meta lægra útsvar hér en í Reykjavík en tæplega 6% munar á álagningunni. Fasteignagjöld verða lækkuð um 5%  á næsta ári og leikskólagjöld um 25%. Tómstundastyrkir munu hækka úr 30 þúsund í 50 þúsund.

Um 40% íbúðarhúsnæðis á Seltjarnarnesi er undir 120fm að stærð og tæplega 60% er undir 150fm af stærð. Málflutningur vinstrimanna um húsnæðisskort ungra fjölskyldna er því villandi. Húsnæðisverð er vitanlega hátt á Seltjarnarnesi, í samræmi við þjónustu og lífsgæði Nessins – og lágar álögur.

Seltjarnarnesbær laðar að sér barnafjölskyldur enda mælist ánægja þeirra hærri en í öðrum sveitarfélögum. Í kosningunum 31. maí óska sjálfstæðismenn eftir traustum meirihluta til að hér verði áfram eftirsóknarvert að ala upp börn. Og eldast.




Skoðun

Sjá meira


×