Innlent

Gagnrýnir svikin loforð stjórnvalda

Birta Björnsdóttir skrifar
Hátíða­höld vegna alþjóðlegs bar­áttu­dags verka­lýðsins fóru fram í 31 sveit­ar­fé­lagi um allt land í dag, meðal annars í Reykjavík þar sem menn, konur og börn gengu fylktu liði niður Laugarveginn og til útifundar á Ingólfstorgi.

Þó baráttumálin sem viðstaddir voru að berjast fyrir væru fjölmörg voru kjör launþega sem fyrr í brennidepli.

„Stóru málin eru auðvitað varanlegt leiguhúsnæði og svo erum við að berjast fyrir jafnrétti í víðum skilningi þess orðs og fjölskyldustefnu, því það er það sem fólk horfir mest til núna," sagði Elva Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, en hún var ein af ræðumönnum dagsins á Ingólfstorgi.

Í ræðu sinni sendi hún stjórnvöldum tóninn.

„Það var lofað hér í aðdraganda kjarasamninga í desember og janúar að rtíkisstjórnin myndi beita sér fyrir því að gjaldskrárhækkanir myndu ekki taka gildi eins og boðað hefði verið, en nú líða mánuðirnir og ekki er búið að efna það sem lofað var," sagði hún.

„Við viljum auðvitað gjarnan sjá að þeir sem eru tekjuhærri séu meira að greiða til samfélagsins heldur en að verið sé að taka upp þjónustugjöld, sem bitna auðvitað helst á þeim sem lægstar tekjurnar hafa."

En hvað geta verkalýðsfélögin gert betur til að ná settum markmiðum?

„Við þurufm auðvitað bara að halda áfram að koma þessu á framfæri. Við erum að ræða við stjórnvöld og við erum líka að taka málin í okkar henndur."

En það voru ekki allir launþegar í fríi i dag. Til dæmis voru allar verslanir Bónus opnar.

Anja Pidzo, starfskona í Bónus, sagði þó lítið mál að vera í vinnunni í dag, þetta væri í raun eins og hver annar vinnudagur. Hún sagðist ekki hafa heyrt margar gagnrýnisraddir vegna opnunar á versluninni í dag.

„Það var reyndar einn maður sem kom áðan og var að óskapast yfir því að við hefðum opið í dag. En hann var samt kominn til að versla við okkur," sagði Anja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×