Innlent

Akstursbann á hálendinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/Anton
Nú þegar frost er að fara úr jörð þarf víða að banna allan akstur á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru. Þeir sem hyggja á fjallaferðir eru beðnir að kynna sér ástand á viðkomandi leiðum og virða akstursbann þar sem það er í gildi en þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vegir eru greiðfærir á Suðurlandi þó eru hálkublettir á Mosfellsheiði. Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á norðanverðu Snæfellsnesi. Hálka er á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Vatnaleið og á Fróðárheiði. Snjóþekja er í Svínadal.

Á Vestfjörðum er snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og þæfingsfærð og skafrenningur á Þröskuldum. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi. Hálkublettir eða hálka er á Innstrandarvegi. Hálka og skafrenningur er á Gemlufallsheiði. Snjóþekja er á Hálfdán og Mikladal en hálka á Kleifarheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Klettsháls. Þungfært er frá Flókalundi að Klettshás og einnig norður í Árneshrepp.

Norðvestanlands er nú víða hálkublettir á vegum á láglendi. Hálka og skafrenningur er á Þverárfjalli en hálkublettir á Vatnskarði og víða í Skagafirði. Snjóþekja og skafrenningur er á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er hálka á Öxnadalsheiði og í Eyjafirði. Snjóþekja er í Víkurskarði. Þungfært er á Tjörnesi og á Hólasandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er frá Kópaskeri að Raufarhöfn. Ófært á Hófaskarð og Hálsum og verið að moka. Hálka eða snjóþekja er á öðrum leiðum.

Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Á Austurlandi er þungfært á Fjarðarheiði. Hálka og skafrenningur á Fagradal og Oddskarði. Hálkublettir er frá Fáskrúðsfirði að Streiti en greiðfært þaðan og suður úr. Ófært er á Vatnskarði eystra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×