Innlent

Neikvæð merki í heilsufari þjóðarinnar eftir kreppuna

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Það hefur stundum komið í ljós að kreppa virðist hafa þau áhrif að heilsufar fólks batnar,“ segir Arna.
"Það hefur stundum komið í ljós að kreppa virðist hafa þau áhrif að heilsufar fólks batnar,“ segir Arna.
„Við höfum séð ákveðnar vísbendingar um neikvæð merki í heilsufari þjóðarinnar eftir kreppuna,“ segir Arna Hauksdóttir, dósent í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.

Hjartakvillar, streitueinkenni og þunglyndi eru meðal þeirra sjúkdóma og kvilla sem hafa aukist hjá konum frá kreppu. Einnig hefur orðið aukin áhætta á fyrirburafæðingum.

Þessar vísbendingar gefa að sögn Örnu fulla ástæðu til þess að hefja rannsóknir á áhrifum kreppunnar á heilsu fólks. Hún er í stýrihóp sem er að fara af stað með stóra rannsókn um heilsusögu Íslendinga. Rannsóknin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands.

Umfangsmikil mæling verður gerð á heilsufari fólks um hvaða áhrif hinir ýmsu þættir hafa á andlega og líkamlega heilsu þess.Undirbúningur rannsóknarinnar hefur staðið yfir í nokkur ár.

Fylgst með heilsufari þjóðarinnar til lengri tíma

„Það hefur stundum komið í ljós að kreppa virðist hafa þau áhrif að heilsufar fólks batnar,“ segir Arna. Slíkt sé þá oft mælt í dánartíðni. Dánartíðni lækki í kreppu en hækki í góðæri.

Myndin er þó ekki það einföld að sögn Örnu. Fjöldi sjálfsvíga og tilraunir til sjálfsvíga og tíðni dauðsfalla vegna hjartasjúkóma gefa til kynna að slík veikindi aukist í kreppu.

„Það kom í ljós fyrst eftir að kreppan skall á að sjálfsvígum hefði ekki fjölgað,“ segir Arna. Hér á landi eru skráð um 30 sjálfsvíg á ári og en út frá þeim tölum er ekki hægt að fullyrða um marktæk áhrif.

Hér á landi gefi tölur um fjölda tilrauna til sjálfsvíga og fjölda tilfella um sjálfsskaða betri niðurstöður. Í rannsókninni sem verður langtímarannsókn verður fylgst með heilsufari þjóðarinnar til lengri tíma og þar með hægt að skoða hvernig þættir eins og streita og áföll hafa á heilsufar til langs tíma.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×