Innlent

Sigmundur Davíð: „Ég er viss um að Kanadamenn eru skipulagðir en þeir eru ekki ferkantaðir“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sigmundur gantaðist eftir jómfrúrflug Icelandair til Edmonton.
Sigmundur gantaðist eftir jómfrúrflug Icelandair til Edmonton. vísir/heiða
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lenti skömmu eftir klukkan 16 að staðartíma á alþjóðaflugvellinum í Edmonton, en hann var farþegi í jómfrúrflugi Icelandair til borgarinnar. Edmonton Journal greinir frá og hefur fréttamaður orð á því að Sigmundur hafi verið léttur í lundu eftir flugið.

Forsætisráðherrann hélt stutta tölu á flugvellinum og sagðist ekki vera búinn að greiða hár sitt, sem væri úfið eftir blund í fluginu. Hann sagðist hafa komið áður til Kanada, en aldrei til Alberta-fylkis.

„Það var athyglisvert að horfa á landslagið þegar við flugum yfir,“ sagði Sigmundur og vöktu „ferningarnir“ sérstaklega áhuga hans. „Ég er viss um að Kanadamenn eru mjög skipulagðir en þeir eru ekki ferkantaðir.“

Sigmundur mun í ferð sinni eiga fundi með Alison Redford, forsætisráðherra Albertafylkis, og Don Iveson, borgarstjóra Edmonton. Einnig mun ráðherra heimsækja þing Albertafylkis og ávarpa viðskiptaráð og efnahagsráð Edmonton, en með forsætisráðherra í för verður viðskiptasendinefnd frá Íslandi.

Þá mun forsætisáðherra kynna sér olíuiðnaðinn í Albertafylki og hitta fyrir Vestur Íslendinga, en fjölmargir Kanadamenn af íslenskum uppruna búa í Edmonton og Alberta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×