Innlent

20 krónur urðu að 14 milljónum

Baldvin Þormóðsson skrifar
Það getur borgað sig að ganga um með klink í vasanum.
Það getur borgað sig að ganga um með klink í vasanum. visir/daniel
Eldri borgari í Hafnarfirði var að klára sín vikulegu innkaup í Fjarðarkaupum þegar hann keypti sér Lottó miða fyrir 500 krónur, en það er sú upphæð sem hann kaupir vanalega fyrir.

Það var þá sem afgreiðslustúlkan spurði hvort hann vildi ekki bæta við einni röð fyrir 20 krónur. Hann fiskaði eftir klinki í vasanum og fann til krónurnar, en það var einmitt á þeirri fjórðu röð sem vinningurinn kom.

Á laugardagskvöldið las maðurinn fréttir á mbl.is að vinningsmiðinn hafi verið keyptur í Fjarðarkaupum. Þegar hann hafði borið miðann sinn saman við vinningstölurnar fjórum sinnum kallaði hann á konuna sína sem fór einnig yfir miðann. Það voru því mikil gleðitíðindi þegar þau gerðu sér grein fyrir því að þau hefðu unnið tæpar 14 milljónir króna.

Í fréttatilkynningu íslenskrar getspár kemur fram að hjónin ætli að nýta sér fjármálaráðgjöf fyrirtækisins og að þau ætli að nota vinninginn til þess að gera betur við sig í ellinni en þau höfðu áður gert ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×