Innlent

Neyðarástand í félagslega íbúðakerfinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Forseti Alþýðusambandsins segir vanta allt að 30.000 íbúðir í félagslega kerfinu til að Ísland standi jafnfætis nágrannalöndum. Félagsmálaráðherra segir að tryggja verði öllum heimilum húsnæði sem henti.

Neyðarástand ríkir í félagslega íbúðakerfinu og telur Alþýðusambandið að reisa þurfi allt að 30 þúsund félagslegar íbúðir til að mæta þörfinni. Félagsmálaráðherra vill að farið verði í svipað átak og þegar Breiðholtið var byggt upp á sínum tíma.

Verkamannabústaðir voru stórhuga framkvæmd á sínum tíma til að leysa úr mikilli þörf verkafólks fyrir húsnæði, sem ekki gat staðið undir kaupum á eigin húsnæði. Fyrstu verkamannabústaðirnir voru byggðir við Hringbraut upp úr 1930. En það kerfi var aflagt fyrir all nokkrum árum. Í dag eru á bilinu fimm til sjö þúsund félagslegar íbúðir í landinu sem er aðeins brot af því sem talin er þörf á í dag.

Langir biðlistar eru eftir félagslegu húsnæði víða um land og þörfin vex ár frá ári. Forseti ASÍ segir að fimmtungur til fjórðungur íbúðarhúsnæðis í nágrannalöndunum séu félagslegt húsnæði.

„Á Íslandi eru 130 þúsund íbúðir og fimmtungur af því væri þá 25 þúsund og fjórðungur væri þrjátíu þúsund. Þá sjáum við að það er mjög mikill skortur á þessu húsnæði, sem þýðir að tekjulágu fólki er att út í að kaupa kannski á forsendum sem það ræður ekki við,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands.

Um tólf þúsund íbúðir í félagslega kerfinu hafi verið einkavæddar á sínum tíma og það muni taka tíma að vinna það upp.

„Það er alveg ljóst að það þarf að byrja þetta með einhvers konar átaki. Ekki endilega byggja vegna þess að það er ekki endilega skortur á íbúðum, heldur er það eignarformið og greiðsluformið sem er vandin. En það þarf að byrja þetta verkefni með átaki og þá erum við að tala um einhverjar þúsundur íbúða og síðan þarf að tryggja það að í nýju húsnæði sé u.þ.b. fjórðungur byggður á félagslegum forsendum,“ segir Gylfi.

Þetta er að hluta til byrjað í Reykjavík með samvinnu borgar, verkalýðshreyfingar og fleiri aðila og ljóst að viljinn er til staðar hjá flestum sveitarfélögum. En Gylfi segir ríkið þurfa að koma að fjármögnuninni.

„Ég hef verið að leggja áherslu á að huga þurfi að félagslegu húsnæði. Já, en það þarf líka að huga að uppbyggingu á leigumarkaðnum almennt á Íslandi og búa til betri ramma utan um húsnæðiskerfið í heild sinni,“ segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. Og segir að það sem verið sé að gera með í Reykjavík með samvinnu borgar, verkalýðshreyfingar og fleiri sé í anda þess sem hún vilji sjá gerast almennt.

Hún vilji horfa til þess sem gert var í Breiðholti á sínum tíma.

„Ég held að við verðum að horfa fram á við og svara spurningunni: Hvernig viljum við tryggja öllum íslenskum heimilum húsnæði sem hentar,“  segir félagsmálaráðherra og til þess stefni hennar vilji svo sannarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×