Viðskipti innlent

Margfalt metár hjá hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mynd/GVA
Árið 2013 var margfalt metár í hitaveiturekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kemur fram í frétt Orkuveitunnar.

Heitvatnsnotkun á ári hefur aldrei verið meiri en í heild notuðu fólk og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu liðlega 78 milljónir rúmmetra af heitu vatni árið 2013. Átta mánuðir ársins 2013 voru metmánuðir, það er að aldrei hafði notkunin verið meiri í þeim mánuði.

Ef notkun hvers mánaðar er borin saman við meðaltal áranna 2006 til 2012 kemur í ljós að alla mánuði ársins, nema í febrúar, var notkunin yfir meðallagi.

Þann 6. desember var metrennsli um hitaveituæðarnar í borginni. Um kvöldmatarleytið þennan föstudag náði klukkustundarrennslið 16.087 rúmmetrum á klukkustund. Það gera um 270 rúmmetra á sekúndu og svarar til rennsli Elliðaánna af heitu vatni streymdu í híbýli á höfuðborgarsvæðinu, frá Hafnarfirði í suðri til Kjalarness í norðri.

Meðalrennsli Elliðaánna er 4,75 rúmmetrar á sekúndu. Fyrra klukkustundarmet var frá árinu 2008 og nam 15.614 rúmmetrum á klukkustund.

Nærtækustu skýringuna á þessu segir Orkuveitan vera að finna í veðurfarsyfirliti Veðurstofu Íslands. Þar segir meðal annars að sumarið hafi verið talið óhagstætt um landið sunnan- og vestanvert, óvenjusnarpt kuldakast hafi gert um mánaðamót apríl og maí, dauf tíð sunnanlands í júní og þungbúið veður og þrálát úrkoma syðra í ágúst. Umhleypingar voru í nóvember og kuldakast í byrjun desember.

En þótt meðalhiti ársins 2013 hafi verið yfir meðaltali áranna 1961-1990, þá sinnir hitaveitan talsvert fleirum og meira húsnæði nú en á því árabili.

Um 90% heita vatnsins eru nýtt til húshitunar og tengslin á milli lofthita og heitavatnsnotkunar því sterk.

Mynd/Orkuveita Reykjavíkur





Fleiri fréttir

Sjá meira


×