Viðskipti innlent

Gistinóttum á hótelum fjölgar enn

Samúel Karl Ólason skrifar
Gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 14 prósent á fyrstu ellefu mánuðum 2013.
Gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 14 prósent á fyrstu ellefu mánuðum 2013. Mynd/Þorgils

Gistinætur i hótelum í nóvember síðastliðnum voru 138.800, sem er 20 prósent aukning frá nóvember 2012. Gistinætur erlendra gesta voru 78 prósent af heildarfjöldanum en þeim fjölgaði um 25 prósent á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um fimm prósent. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Á höfuðborgarsvæðinu voru 110.200 gistinætur á hótelum í nóvember sem er fjölgun um 21 prósent miðað við nóvember 2012. Á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 3.500 gistinætur og er það fjölgun um 52 prósent. Á Suðurlandi voru þær 11.000 sem er aukning um 40 prósent. Á Austurlandi voru gistinætur 2.600 sem er 37 prósent aukning og á Suðurnesjum voru gistinæturnar 5.500 sem er aukning um 12 prósent.

Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum aftur á móti og voru þær 6.000 miðað við 7.300 árið áður.

Sé litið til fyrstu ellefu mánuði ársins 2013 voru gistinætur á hótelum 1.929.757 borið saman við 1.705.137 sama tímabil árið áður. Þá fjölgaði gistinóttum erlendra gesta um 14 prósent á meðan gistinóttum íslendinga fjölgaði um 11 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×