Viðskipti innlent

CCP á einni stærstu og mikilvægustu tækniráðstefnu heims

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Eldar segir spennu og eftirvæntingu ríkja eftir nýja leiknum.
Eldar segir spennu og eftirvæntingu ríkja eftir nýja leiknum.
„Við erum núna á einni stærstu tækniráðstefnu heims, Consumer Electronics Show - CES. Þar er leikur okkar, EVE Valkyrie að vekja gríðarmikla athygli. Við vorum líka að tilkynna um það í fyrsta sinn þar að leikurinn muni koma út fyrir Oculus Rift,“ segir Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP í samtali við Vísi.

CES er ein allra stærsta nýsköpunar- og tækniráðstefna heims og CCP sýnri þar prufuútgáfu (demo) af nýja leiknum sínum sem kemur út síðar í ár.

Eldar segir CES ráðstefnuna rétta staðinn til að tilkynna um samstarf þeirra við fyrirtækið Oculus Rift, sem kynnir nýja útgáfu af þrívíddarbúnaði sínum á ráðstefnunni, en leikurinn mun koma út fyrir slíkan búnað síðar á árinu.

„Við höfum verið að leggja áherslu á að kynna EVE Valkyrie fyrir fjölmiðlum og starfsmönnum í tækniiðnaðinum. Leikurinn og hvernig ný prufuútgáfa hans virkar á nýjum útbúnaði Oculus Rift, Crystal Cove, hefur verið að vekja mikla athygli. Það er greinilegt að það ríkir spenna og eftirvænting, langt út fyrir tölvuleikjaiðnaðinn, fyrir því sem við erum að gera og nýtt ár ber í skauti sér með tölvuleiki í þrívídd,“ segir Eldar.

Hann segir CCP einnig hafa verið að sýna leikinn fyrir almenningi sem sækir ráðstefnuna.

„Það hefur myndast mikil örtröð og röð í að fá að prufa,“ segir Eldar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×