Skoðun

„Tips“ á samfélagsmiðlum

Álfrún Björt Øfjörð Agnarsdóttir skrifar
Þeir sem hafa verið virkir á samfélagsmiðlum á borð við Facebook hafa líklega orðið varir við hópana „Beautytips“ og „Sjomlatips“. Þessir hópar eru kynjaskiptir, þ.e.a.s. eingöngu kvenmönnum er heimilaður aðgangur í Beautytips og eingöngu karlmönnum í Sjomlatips. Þessir hópar byggjast á því að meðlimir þeirra fá ráðleggingar og bera fram spurningar til félaga/vinkvenna innan þeirra um allt mögulegt sem gæti varðað einstaklinginn. Meðlimir í Beautytips eru nú um 14.000 og Sjomlatips 9.000.

Báðir hóparnir tóku sig til og settu af stað safnanir. Þær gengu út á það að meðlimir hópanna lögðu inn pening á reikning og rann sá peningur óskertur til Mæðrastyrksnefndar. Að nota fjöldann til góðs, líkt og í þessu tilfelli, finnst mér framúrskarandi og hafa hóparnir safnað um 1,2 milljónum króna samanlagt. Þrátt fyrir allt góðviljaða fólkið í þessum hópum eru nokkur skemmd ber í klasanum.

Eftir að hafa séð myndasafnið sem meðlimir Sjomlatips hlóðu upp á samskiptamiðilinn Snapchat get ég ekki á mér setið. Þar voru birtar niðrandi myndir af fólki og hlutgerving kvenna gríðarleg. Allt gert í nafnleysi internetsins. Ég skil ekki hvað drífur þessa „sjomla“ til þess að niðurlægja konur með því að merkja myndir af þeim með orðunum „nauðgunarefni“ eða dreifa myndum af þeim sem voru augljóslega ætlaðar einungis einum aðila. Stúlkur undir lögaldri eru helstu fórnarlömb þessarar dreifingar og veldur mér miklu hugarangri. Hvers konar heimur er það sem samþykkir slíkan gjörning?

Ég vil taka það sérstaklega fram að það eru ekki allir meðlimir hópsins sekir um þessa hegðun, heldur einungis hluti af hópnum sem hefur greinilega ekki skilning á almennri virðingu fyrir jafningjum sínum. Þessari hegðun verður að útrýma, sama hvort hún er af hendi karla eða kvenna. Þar sem þetta er vandamál sem bæði kynin þurfa að takast á við tel ég kynjaskiptingu þessara hópa óþarfa, en það er hins vegar efni í aðra grein. Vegna fjölda meðlima í hópunum, Sjomlatips og Beautytips, hafa þeir grundvöll til að útrýma þessari hegðun og efla virðingu fyrir náunganum. Þeir hafa sýnt fram á að með því að leggjast á eitt er hægt að gera gott í krafti fjöldans, er ekki betra að sýna samstöðu?




Skoðun

Sjá meira


×