Aulahrollurinn sem fylgir Andra Frey
Vettvangur deilu þeirra er Facebook þar sem krækt er í fréttAtla Fannars um að Egill Helgason sé að feta í fótspor Andra á Flandri, þá er hann fór til Vesturheims, í sjónvarpsþáttum sínum Vesturförum. Api í raun það sem Andri hafði áður gert. Eiður segir það engu skipta því munurinn sé sá að Egill og hans fólks geri þetta vel, kunni til verka: „Vitræn samtöl við fólk sem veit og þekkir söguna. Andraflandur var mestmegnis sjálfhverfubull. Skelfilegt ef slíkt er í vændum frá Færeyjum,“ en væntanleg er sjónvarpsþáttaröð þar sem segir af ævintýrum Andra í Færeyjum. Margrét Böðvarsdóttir tekur heilshugar undir með Eið. „Egill er fagmaður með ljúfa framkomu en Andri er sjálfhverfur og kann sig ekki. Það hellist yfir mig aulahrollur þegar ég sé hann og heyri.“
Helga verður nóg boðið
Þá er Helga Seljan nóg boðið. Hann kemur varlega inn og bregður fyrir sig háði: „Eiður og Margrét: Fá ef nokkur eins góð meðmæli hef ég heyrt með æskuvini mínum og félaga, en þau að ykkur finnist hann leiðinlegur, dónalegur og sjálfhverfur. Svo ég tali nú ekki um aulahroll Margrétar. Ef allir væru nú eins kurteisir og þið; vel að sér í mannasiðum.“
En, leikar eiga eftir æsast til mikilla muna því við svo búið, eftir uppgerðarkurteisi og kveðjur, slær í brýnu milli þeirra Eiðs og Helga svo um munar. Eiður þakkar Helga fyrir þessar „einstaklega smekklegu og kurteislegu athugasemdir. Er það þetta sem við eigendur Ríkisútvarpsins greiðum þér laun fyrir? Þú ert stofnuninni til ævarandi sóma fyrir einstaka kurteisi og hlýtur að hafa meistaragráðu í mannasiðum. Vér dónar sem leyfum okkur að gagnrýna lélega sjónvarpsþætti hneigjum okkur í auðmýkt.“
Agnarsmátt sálartetrið
En, Helgi, sem tekur það fram að hann hafi aldrei gefið sig út fyrir að vera kurteis, lætur Eið ekki eiga neitt inni hjá sér og svarar samstundis: „Hvað borga ég þér fyrir Eiður? Ekki ert þú í vinnu?“ Og bætir svo í: „Þið Margrét mannasiðakennari, gagnrýnið ekkert sjónvarpsefni, heldur einbeitið ykkur fyrst og síðast að því að upphefja agnarsmátt sálartetrið í ykkur með því að ráðast að persónu Andra.“ Og seinna segir Helgi, en alþýðleiki Andra Freys hafði komið til tals: „Alþýðlegt fyrir Eiði, er að sitja af sér nokkur ár á þingi; hvert hann flaut á bökum verkafólks. Standa þar þétt að baki fámenns hóps stóreignafólks, og stækka sjóði þess enn meir, með því að leyfa þeim að veðsetja óveiddan fisk, en fara síðan betlandi með lettersbréf fyrir forsvarsmenn óhugnanlegasta einræðisríkis vorra tíma og verða sendiherra í Alþýðulýðveldinu Kína. Andri er ekki þannig. Og verður aldrei þannig alþýðlegur.“

