Friðarverðlaunin hlutu hin pakistanska Malala Yousafzai og Indverjinn Kailash Satyarthi. Yousafzai hefur barist fyrir því að stúlkur í heimalandi hennar fái að mennta sig til jafns við stráka.
„Ég er stolt af því að vera yngsti Nóbelsverðlaunahafi sögunnar og jafnframt fyrsti Pakistaninn til að hljóta þau,“ sagði Yousafzai í ræðu sinni við athöfnina. Hún taldi enn fremur líklegt að hún væri eini Nóbelsverðlaunahafinn sem myndi enn slást við yngri bræður sína.
Áður var Lawrence Bragg yngsti verðlaunahafinn en hann var 25 ára er hann hlaut eðlisfræðiverðlaunin árið 1915 fyrir rannsóknir sínar á röntgengeislum.
Satyarthi hlaut verðlaunin fyrir baráttu sína gegn barnaþrælkun en talið er að samtök hans hafi losað hátt í 100.000 börn úr böndum þrælkunar. Við verðlaunaafhendinguna hljóp maður upp á sviðið og veifaði mexíkóska fánanum áður en hann var snarlega fjarlægður af öryggisvörðum.

„Það er auðvelt að ímynda sér að rithöfundar eigi auðvelt með að flytja ræður en sannleikurinn er sá að oft eigum við í vandræðalegu sambandi við rödd okkar,“ sagði Modiano í þakkarræðu.
Landi hans, Jean Tirole, hlaut verðlaunin í hagfræði fyrir rannsóknir sínar á markaðsstyrk og regluverki. Í umsögn Nóbelsnefndarinnar segir að Tirole hafi með rannsóknum sínum sýnt hvernig hægt sé að stýra mörkuðum með löggjöf þar sem lítil samkeppni sé til staðar.

Norsku hjónin May-Britt Moser og Edvard Moser deildu verðlaunum í læknisfræði með hinum bresk/bandaríska John O'Keefe. Þau uppgötvuðu frumur í heilanum sem gera mönnum kleift að átta sig á rýminu í kringum sig. Uppgötvun þeirra mun koma að gagni í baráttunni við Alzheimers-sjúkdóminn en erfiðleikar við að rata eru meðal fyrstu einkenna hans.
Þrír skiptu með sér Nóbelnum í efnafræði. Bandaríkjamennirnir Eric Betzig, William Moerner og Þjóðverjinn Stefan Hell voru heiðraðir fyrir að búa til smásjá sem gerir vísindamönnum kleift að skoða smærri hluti en þekktist áður. Þökk sé þeim er nú hægt að kafa inn í frumur og fylgjast með prótínum og öðrum sameindum.