Innlent

Ísland í dag: Hræddur um að missa af fyrstu árum frumburðarins

Ásgeir Erlendsson skrifar
Einar Örn Adolfsson var ekki orðinn átján ára þegar hann flutti inn rúmlega 30.000 e-töflur og þremur árum síðar var hann dæmdur í 6 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness. Hann hefur snúið blaðinu við, er hættur neyslu, búinn að gifta sig og barn er á leiðinni. Hann er hræddur um að missa af fyrstu árum frumburðarins og finnst ósanngjarnt að ekki hafi verið tekið tillit til ungs aldurs hans og þeirrar staðreyndar að hann sé búinn að snúa blaðinu við.

„Ég var náttúrulega bara í rugli á þessum tíma og skuldaði peninga. Ég get ekki sagt að maður hafi verið að hugsa eitthvað mikið á þessum tíma. Þetta var lausnin mín til að losa mig úr öllu þessu sem ég var kominn í. “

Í ágúst árið 2011 var Einar Örn staddur á tónleikum í Gautaborg. Þar fékk hann símhringingu og var beðinn um að flytja kíló af kókaíni til landsins.

„Þarna var ég tekinn á svolítið óþægilegum stað. Var úti þegar ég var beðinn um að gera þetta. Ég var heilaþveginn með því að enginn myndi leita á 17 ára gutta og þessu trúði ég.“

Einar var handtekinn við komuna til Íslands með rúmlega 30.000 e-töflur í fórum sínum. Hann sat í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði og eftir nokkurn tíma í óreglu fann Einar hjá sér þörf til að snúa blaðinu við. Hann fór inn á Vog og í áframhaldandi meðferð inn á Staðarfelli.

„Þegar maður fer inn á Staðarfell og í áframhaldandi meðferð hittir maður stráka sem ætla að taka sig á. Þarna eignast ég vini og þeir segja mér það að ég fari ekkert aftur út í gamla lífið.“

Rannsókn málsins dróst og ekki var gefin út ákæra af Ríkissaksóknara fyrr en í janúar á þessu ári, tveimur og hálfu ári eftir að brotið var framið. Einnig urðu tafir á dómsuppkvaðningu vegna anna dómara og það var því ekki fyrr en í maí á þessu ári sem kveðinn var upp dómur, tæpum þremur árum eftir brotið. Einar segir það hafa verið erfiða stund þegar dómsorðið var lesið.

„Ég fór þarna inn og var rosalega trúgjarn á að það yrði tekið til greina það sem ég er búinn að vera að gera. Ég var búinn að fullvissa mig um það. Ég var þarna með fjölskyldunni minni og konunni minni og líður bara vel. Var tilbúinn að heyra það sem gerist og var að búast við einu ári kannski einu og hálfu ári ásamt skilorði. “

Einar og sá sem fékk hann til verksins voru báðir dæmdir til 6 ára fangelsisvistar fyrir innflutninginn.

„Mamma fór að gráta ásamt konunni minni. Pabbi náttúrulega, þetta var mikið áfall fyrir hann. Þetta voru vonbrigði en þau trúa á mig. Þau treysta á að ég haldi mínu striki.“

Einar segist frá upphafi hafa vonast til að geta hafið afplánun í kjölfar gæsluvarðhaldsins en var sleppt eftir þriggja mánaða gæslu.

„Mig langaði ekkert að fara út, ég hefði vilja klára þetta strax. “

Bið Einars eftir dómi héraðsdóms var tæp þrjú ár, óvíst er hvenær Hæstiréttur tekur málið fyrir og þegar því er lokið fer málið á borð Fangelsismálastofnunar. Því er mögulegt að tæp fjögur ár verði liðin frá brotinu þegar Einar getur hafið afplánun. Erla Kristín Árnadóttir, staðgengill Fangelsismálastjóra, segir að reynt sé eftir fremsta megni að forgangsraða á þann hátt að yngri afbrotamenn fái að hefja sína afplánun eins fljótt og auðið er.

„Ef að menn eru í þessari stöðu vilja þeir koma inn sem fyrst. Þannig við reynum að verða við því. Frá því að við fáum dóm og þar til menn komast inn líða svona 1-4 mánuðir. Ef menn eru í góðum málum þá reynum við að vista þá í opnu fangelsunum okkar, annað hvort á Kvíabryggju eða Sogni. Ef þetta eru ungir einstaklingar þá eru þeir í forgangi hvað varðar vistun í opnum fangelsum. “

Einar Örn vonast eftir mildari dómi í Hæstirétti og að rétturinn taki tillit til þess að líf hans nú er gjörólíkt því sem var þegar hann var 17 ára.

„Þetta er náttúrulega ömurleg tilfinning, þetta er svo mikil óvissa. Ég treysti á að Hæstiréttur geri betur en í leiðinni er ég hræddur um að þetta fari eins. Þá sé ég ekki fram á að geta séð um mína fjölskyldu. Fjölskylduna sem ég er að búa til hérna heima hjá mér. Ef ég fer inn í svona langan tíma þá missi ég tímann með barninu mínu. Að dæma mig inn á Litla Hraun er bara dómur inn í gamla lífernið. Það er neysla inn á Litla Hrauni.“

Nokkur dæmi eru um að menn komi í afplánun eftir að hafa snúið baki við óreglu.

„Auðvitað er erfitt fyrir svoleiðis menn að koma inn í fangelsi og ef það er langt um liðið frá brotinu þá er þetta harkalegra fyrir þá. Það er betra að koma inn í góðu ástandi. Við höfum séð dæmi þess að menn komi inn í mikilli neyslu og þá verður þetta miklu erfiðara fyrir þá og þeim stendur færri úrræði til boða,“ segir Erla Kristín hjá Fangelsismálastofnun.

Einar Örn segist horfa jákvæðum augum á framtíðina. Hann hefur hug á að fara til Danmerkur í nám þegar málinu er lokið og ætlar að halda sínu striki.Hægt er að sjá viðtalið við Einar Örn í spilaranum hér að ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.