Lífið

Elvis Presley kemur fram á Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Elvis Presley kemur fram á tónleikum í Hörpu í apríl.
Elvis Presley kemur fram á tónleikum í Hörpu í apríl.
„Þetta verður rosalegt og í raun einstakur viðburður á Íslandi,“ segir Guðbjartur Finnbjörnsson hljómleikahaldari en Elvis Presley mun taka öll sín vinsælustu lög á um tveggja klukkustunda löngum tónleikum í Eldborgarsalnum í Hörpu. „Ef þú hefur ekki séð Elvis á tónleikum, þá er þetta það næsta sem þú kemst því að sjá Kónginn á sviðinu.“

Þetta verða sannkallaðir stórtónleikar því allt í allt koma hingað til lands 28 manns, átta hljóðfæraleikarar, fjórir bakraddasöngvarar og fjöldi tæknimanna. Þá koma hingað til lands nokkur tonn af græjum. „Við fáum sent sérstakt hátæknitjald sem verður notað til þess að varpa Elvis á sviðið,“ útskýrir Guðbjartur.

Elvis Presley mun syngja öll sín vinsælustu lög með lifandi hljómsveit. „Rödd Elvis og nærvera hans á tjaldinu er svo kraftmikil og samspilið við tónlistarmennina og söngvarana á sviðinu svo samofið að eftir nokkur lög getur þú nánast gleymt því að Elvis er ekki í eigin persónu á sviðinu,“ bætir Guðbjartur við.

Kóngurinn kemur fram í Eldborginni hinn 24. apríl næstkomandi en miðasala hefst á fimmtudag á harpa.is og midi.is.

ELVIS PRESLEY - ON STAGE / Promo Video from SEG Events on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.