Innlent

Enginn opnaði sjúkraskrá án erindis

Eftirlitsnefnd með notkun rafrænnar sjúkraskrár hefur skilað ársskýrslu 2012 til framkvæmdastjóra lækninga, en nefndin starfar samkvæmt erindisbréfi frá árinu 2010.

Á vef Landspítalans segir að nokkrar heilbrigðisstéttir hafi verið skoðaðar sérstaklega með tilliti til þess hvort einhver hefði opnað sjúkraskrá sem hann átti ekki erindi í.

„Vegna frétta í fjölmiðlum af fimm þekktum einstaklingum sem leituðu til spítalans var kannað hvort óviðkomandi hefðu opnað sjúkraskrár þeirra. Að auki óskuðu fimmtíu og sex sjúklingar eftir lista yfir þá sem hefðu opnað sjúkraskrá þeirra. Til viðbótar bárust fimm beiðnir til nefndarinnar frá yfirmönnum vegna gruns um misferli við opnun sjúkraskráa.

Ekki vaknaði grunur um að óviðkomandi hefði opnað sjúkraskrá í neinu af ofangreindum tilfellum.

Eftirlitsnefndin mun starfa með svipuðu móti áfram. Aðferð nefndarinnar við rannsóknir á opnun sjúkraskráa er kerfisbundin en byggir einnig á slembiúrtaki sem hvaða starfsmaður sem er getur lent í. Ströng viðurlög eru við því ef starfsmenn, nemendur eða aðrir opna sjúkraskrár sem þeir eiga ekki erindi í,“ segir á vef spítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×