Innlent

Átta Íslendingar ákærðir í Danmörku

Íslendingur er talinn höfuðpaurinn í stóru fíkniefnamáli í Danmörku. Ellefu, þar af átta Íslendingar, hafa verið ákærðir fyrir að smygla 66 kílóum af amfetamíni inn til landsins frá Hollandi.

Það er fréttastofa Rúv sem greinir frá þessu og vitnar í ákæruna sem er í átta liðum. Þrír varða smygl á amfetamíni en fimm varða minni brot. Eiga mennirnir að hafa farið í þrjú skipti til Hollands, keypt þar tugi kílóa af amfetamíni og smyglað til Danmerkur.

Fyrsta smyglið á að hafa gerst í nóvember 2011, næst í ágúst 2012 og að lokum í september sama ár. Að sögn Rúv er götuvirði amfetamínsins um 800 milljónir króna. Tveir mannanna eru ákærðir fyrir að 2000 e-töflur fundust í fórum þeirra.

Höfuðpaurinn í málinu er talinn vera 38 ára Íslendingur ásamt 43 ára Dana. Íslendingurinn er búsettur á Spáni og var einn þeirra sem hlutu dóm í stóra fíkniefnamálinu árið 1999. Daninn var dæmdur fyrir morð árið 1994 og hlaut ellefu ára fangelsisdóm fyrir amfetamínsmygl sumarið 2011.

Reiknað er með því að málið verði þingfest í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×