Innlent

Ósáttir með aðgerðarleysi í Helguvík

„Þessar gjörðir ríkisstjórnarinnar gagnvart okkur og því sem snýr að Helguvík setja hana ekki á háan stall," segir Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Árni ræddi málin í Reykjavík Síðdegis í dag. Þar sagði bæjarstjórinn alltaf hafa verið vongóður um að sátt næðist um uppbyggingu í Helguvík og vildi vera það áfram.

„Það var mikið rætt um það þegar Bakkafrumvarpið fór í gegn mjög snarlega. Við á Suðurnesjum fögnuðum því mikið enda um margt sambærileg verkefni að ræða," segir Árni. Hann segir forystumenn Samfylkingarinnar hafa strax lýst því yfir að jafnræðis skildi gætt varðandi svæði og landshluta.

„Við máttum skilja svo að frumvarp væri á leiðinni en þetta voru allt orðin tóm. Ég hef engar skýringar á því hvað veldur," segir Árni. Aðspurður hvort um pólitík sé að ræða, þar sem ríkisstjórnin sé vinstri stjórn en Sjálfstæðisflokkurinn með hreinan meirihluta í Reykjanesbæ, segir Árni:

„Ég hugsa að það geti vel spilað inní."

Þá minnti Árni á að álver gæti skapað þúsund starfa þar sem fólk væri með laun upp á 500-600 þúsund krónur. Hins vegar sé orðið álver ekki vinsælt í dag.

„Þið sjáið hvernig Vinstri grænir hafa lýst því yfir að þeir séu alfarið á móti álveri í Helguvík. Því er ekki hægt að ímynda sér stuðning ríkisstjórnar við frumvarp um þetta verkefni."

Hægt er að hlusta á viðtalið við Árna í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×