Innlent

Pálmi Haraldsson vill 114 milljónir frá slitastjórn Glitnis

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson
Flestir þeirra sjömenninga sem slitastjórn Glitnis stefndi fyrir dóm í New York hafa krafið slitastjórnina um greiðslu málskostnaðar. Mál Pálma Haraldssonar gegn slitastjórninni var þingfest í morgun. Í kröfugerðinni kemur fram að Pálmi Haraldsson krefst samtals því sem nemur um 114 milljónum íslenskra króna í bætur frá slitastjórninni.

Það var hinn 11. maí 2010 sem slitastjórnin stefndi sjömenningunum auk endurskoðunarfyrirtækisins PWC. Krafðist slitastjórnin bóta að jafnvirði 258 milljarða króna á grundvelli þess að helstu eigendur og stjórnendur bankans hefðu brotið gegn lögum í viðskiptum bankans, meðal annars við Baug. Málið var höfðað í New York en dómari þar vísaði málinu frá, þar sem brotin væru hefðu ekki verið framin þar. Í kröfu Pálma segir að slitastjórn Glitnis hafi „komið úr veiðiferð til New York með öngulinn í rassinum."

Kröfu sína byggir Pálmi meðal annars á því að hann hafi verið búinn að hvetja slitastjórnina til að falla frá því að höfða málið í New York. Meðal annars á þeirri forsendu að hann hafi hvergi nærri komið að stjórn Glitnis banka fyrir hrun hans.

Í stefnu slitastjórnarinnar gegn sjömenningunum, Jóni Ásgeir Jóhannessyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Jóni Sigurðssyni, Hannesi Smárasyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Þorsteini M. Jónssyni og PWC krafðist slitastjórnin bóta að jafnvirði 258 milljarða króna á grundvelli þess að helstu eigendur og stjórnendur bankans hefðu brotið gegn lögum í viðskiptum bankans, meðal annars við Baug.

Í kröfu Pálma segir að stefnan sem var gefin út í New York hafi verið þarflaus og án alls tilefnis af hans hálfu. Í stefnunni hafi verið hafðar uppi kröfu og settar fram staðhæfingar sem slitastjórn glitnis hafi vitað eð mátt vita að væru rangar eða haldlausar með öllu gagnvart Pálma og í raun „lítið annað en tilhæfulausar og ósannaðar aðdróttanir og gífuryrði um vandlega skipulögð og stórfelld fjársvik og aðra refsiverða háttsemi hans og annarra einstaklinga," eins og segir í kröfunni. Mál slitastjórnarinnar gegn sér hafi valdið honum gríðarlegu tjóni, meðal annars í formi beinna fjárútláta, sem aldrei hefðu komið til, hefði málið verið rekið á Íslandi. Þá hafi falist í stefnunni ærumeiðingar í garð Pálma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×