Innlent

120 þúsund hafa nýtt sér ókeypis íslenskunám á netinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frú Vigdís Finnbogadóttir segir erlendum íslenskunemum sögu sína í kennsluefni námskeiðsins.
Frú Vigdís Finnbogadóttir segir erlendum íslenskunemum sögu sína í kennsluefni námskeiðsins. Mynd/Skjáskot
Bandaríkjamenn eru duglegastir að nýta sér ókeypis íslenskunám á netinu sem Háskóli Íslands býður uppá. Um sjálfstýrt vefnámskeið er að ræða sem ber heitið Icelandic Online.

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjúnkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta við HÍ, segir í viðtali við Student.is að mikill styrkur sé í hverjum þeim sem læri íslensku og bætist í hópinn.

„Íslenskt málsamfélag er agnarsmátt og við lítum á hvern þann sem bætist í hópinn, sem kann íslensku og hefur áhuga á íslensku, sem mikinn styrk fyrir okkur öll," segir Kolbrún.

Hér þurfa notendur að flokka orð eftir því hvort um matvöru, búsáhöld eða fatnað er að ræða.Mynd/Skjáskot
Að sögn Kolbrúnar hafa verið um 120 þúsund notendur á síðunni síðan boðið var upp á fyrsta námskeiðið, Icelandic Online I, árið 2004. Þrjú námskeið hafa bæst við síðan þá en þau byggjast á myndrænu og gagnvirku námsefni. Hvert námskeið er talið svara til 45-90 klukkustunda náms.

„Það hafa verið um 120 þúsund notendur frá upphafi. Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennastir auk Þjóðverja og svo Bretar og Rússar," segir Kolbrún við Student.is.

Þeir sem eru frá Reykjavík kallast... Reykvíkingar.Mynd/Skjáskot
Kolbrún telur að íslenskir tónlistarmenn stuðli að auknum áhuga á íslenskri tungu utan landsteinanna. Nokkrir hafi jafnvel flutt til Íslands í þeim tilgangi að læra betur tungumál Bjarkar Guðmundsdóttur.

Hægt er að skrá sig á námskeið Icelandic Online hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×