Innlent

Flensulyfið Tamiflu illfáanlegt - eykur á vanda Landspítalans

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Óvissustig ríkir enn á Landspítalanum vegna inflúensu, Nóró- og RS vírusfaraldra. Lyfjafræðingur telur að vandann megi að hluta rekja til þess að flensulyfið Tamiflu hefur verið illfáanlegt á landinu.

Lyfið Tamiflu er notað á frumstigum flensu, það dregur verulega úr slæmum einkennum hennar og styttir þar með veikindatíma sjúklinga. Skortur á lyfinu varð hjá heildsala fyrir nokkru og hafa birgðir í mörgum apótekum nú klárast.

„Þegar það gerist þá getum við ekki afgreitt fólk með lyfið og það gæti nú verið hluti af þessu vandamáli sem er að kvelja landspítalann að þeir eru að fá hugsanlega fleira fólk inn til sín eða að fólk leitar ekki nógu snemma til læknis og verður meira veikt. Þá er orðið of seint að meðhöndla með lyfinu," segir Aðalsteinn Jens Loftsson lyfjafræðingur og lyfsali hjá Lyfju í Lágmúla.

Óvissustigi var lýst yfir á Landspítalanum í gær vegna inflúensu, nóró- og RS-vírusfaraldra og ríkir það enn. Í gær voru fjörutíu og fjórir sjúklingar þar í einangrun en yfir hundrað hafa leitað á bráðamóttöku síðustu daga vegna inflúensu. Björn Zoega forstjóri spítalans segir ástandið enn alvarlegt en fólk er beðið um að takmarka heimsóknir á spítalann á meðan á þessu stendur. Aðalsteinn segir að það sé mjög slæmt að Tamiflu sé illfáanlegt á landinu í þessu ástandi.

„Þegar svínaflensufaraldurinn gekk hérna yfir þá var þetta bóluefni keypt. Þá var passað betur upp á að eiga betri lager í landinu, þá gekk miklu betur. Þá var alltaf til nóg en nú er ekki til nóg greinilega," segir Aðalsteinn Jens.

Þau apótek sem vantar lyfið geta hringt í neyðarsíma innflytjandans þ.e. 824-6200.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×