Lífið

Ekki bara eymd á Austur-Grænlandi

Ugla Egilsdóttir skrifar
Halla Ólafsdóttir lærði sjónræna mannfræði í Berlín.
Halla Ólafsdóttir lærði sjónræna mannfræði í Berlín.
Halla Ólafsdóttir lauk nýlega meistaranámi í sjónrænni mannfræði sem hún lagði stund á við Freie Universität í Berlín. Lokaverkefnið hennar var heimildarmynd um litla verslun á Austur-Grænlandi.

Heimildarmyndin heitir Bækur með remúlaði og er afrakstur mannfræðilegrar rannsóknar Höllu á samfélaginu í Austur-Grænlandi sem fólst í að búa á meðal fólksins og velja sér sjónarhorn sem segir eitthvað um samfélagið.

Hún valdi sér verslun í þorpinu Tasiilaq á Austur-Grænlandi. „Þetta er bókabúð og hún var sett á laggirnar árið 1989. Síðan hefur hún þróast yfir í allt mögulegt og er núna aðallega ísbúð og internetkaffi. Konan sem rekur búðina er dönsk að uppruna og heitir Gerda og talar dönsku og fjölmörg önnur tungumál.

Meðal annars eru hún einn fárra útlendinga sem hafa lært austurgrænlensku. Mér þótti gagnlegt að vinna með einhverjum sem stóð líka utan við samfélagið og hafði mikla þekkingu til að deila með mér.“

Halla segir að hún hafi komist að því að bærinn og Gerda séu samtengd. „Niðurstaðan í ritgerðinni sem ég skilaði með myndinni var að búðin og Gerda standa og falla hvort með öðru. Þessi kona er mikilvæg manneskja í samfélaginu og hún gerir ýmislegt mögulegt þar, sem væri annars ekki mögulegt.

Það er til að mynda lélegt netsamband í bænum en hún pantar ýmislegt af netinu fyrir aðra. Hún hefur fengið viðurkenningu fyrir það sem hún hefur gert fyrir samfélagið á eigin forsendum þrátt fyrir að vera að mörgu leyti frábrugðin öðrum í þessum bæ.

Bæði af því að hún er dönsk, og svo er erfitt að átta sig á kyni hennar. Hún er mjög karlmannleg, með stórar hendur og djúpa rödd. Þetta er aftur á móti látið liggja á milli hluta, bæði í samfélaginu og í myndinni. Þetta hefur ekki orðið að neinu issjúi, sem segir eitthvað um þetta samfélag,“ segir Halla.

„Ég vildi brjóta upp þessa staðalímynd um Grænlendinga sem er svo áberandi í fjölmiðlum. Það kemur mörgum á óvart að myndin fjalli ekki um eymd eða samfélagsleg vandamál.

Það er eins og fólk hafi bara áhuga á að lesa um slys og eitthvað sem amar að í fjölmiðlum. Ég vildi næra eitthvað jákvætt.

Myndin er tekin á þrjátíu dögum en klippt saman sem einn dagur. Ég vil samt meina að mér hafi tekist að miðla einhvers konar sannleika, að minnsta kosti mínum sannleika, þótt hann sé ekki afstöðulaus.

Ég valdi það sjónarhorn að áhorfendur væru eins og fluga á vegg í búðinni. Ég tek engin viðtöl, en það eru samtöl í myndinni. Mér fannst meira spennandi að sýna andrúmsloftið heldur en að taka viðtöl við fólk sem segir eitthvað um andrúmsloftið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.