Lífið

Spennandi tímar fram undan hjá BAST Magazine

Marín Manda skrifar
Hafrún Alda Karlsdóttir
Hafrún Alda Karlsdóttir
Hafrún Alda ólst upp á Borðeyri við Hrútafjörð hjá ömmu sinni og afa en flutti til borgarinnar átta ára gömul. Hafrún Alda segist hafa átt fullt af draumum þegar hún var yngri en einna helst langaði hana að bjarga heiminum eða að verða bóndi. Hún var mikið náttúrubarn sem erfitt var að ná úr stígvélunum, því best leið henni þegar hún var skítug upp fyrir haus. Tímarnir hafa breyst til muna og í dag býr hún í stórborginni Kaupmannahöfn, starfar með þekktum hönnuðum og stýrir sínu eigin tískuveftímariti, BAST Magazine.

Hvenær fluttir þú til Danmerkur og hvers vegna?

„Í janúar árið 2007 flutti ég til Parísar. Ég var orðin leið á því að vera á Íslandi og langaði að prófa eitthvað nýtt. París þekkti ég reyndar ágætlega þar sem ég hafði búið þar í skamman tíma árið 2004. París er æðisleg borg og ég sakna þess oft að búa þar. Ég flutti svo til Kaupmannahafnar í júní 2007 þegar ég fékk atvinnutilboð hjá dönskum fatahönnuði. Rúmlega sex árum seinna er ég enn þá hér."

Danski hönnuðurinn reyndist vera Henrik Vibskov, ekki satt? Hvernig kom það til?

„Ég datt eiginlega alveg óvart þar inn. Ég prófaði að sækja um og var boðin „intern“-staða í þrjá mánuði í sölu- og markaðsdeildinni hjá Henrik Vibskov. Ég var svo fastráðin í kjölfarið. Þetta var ótrúlega lærdómsríkur tími. Ég kynntist fullt af frábæru fólki og ég held enn þá góðu sambandi við gömlu vinnufélagana. Henrik Vibskov er einstaklega klár og mikill fagmaður þannig að það var frábært að fá að fylgjast með og taka þátt frá innsta hring. Ég hef samt aldrei lært neitt í fatahönnun en hafði þó nokkra sölureynslu frá fyrri störfum sem nýttust mér vel.“ 

Hafrún Alda í KaupmannahöfnMynd/Helgi Ómarsson
Fyrirsætuferillinn ekki glamúr



Hafrún Alda bjó bæði í París og New York nokkrum árum fyrir 

Kaupmannahafnarævintýrið og starfaði sem fyrirsæta á vegum Eskimó Módels þegar hún var aðeins 19 ára gömul.

„Það var ótrúlega skemmtilegur tími, Eskimó Módels reyndust mér vel og ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki. Annars var þetta nú aldrei neitt fyrir mig, ég hafði alltaf miklu meiri áhuga á því sem var að gerast bak við myndavélina og öllu ferlinu sem því fylgdi. 

Ég var því ekki lengi í módelbransanum. Ég var eitt sumar í New York sem ég fílaði strax rosalega vel en flutti svo aftur heim til að fara í skólann. Þegar ég flutti fyrst til Parísar leigði ég ásamt nokkrum íslenskum vinkonum mínum hrikalega íbúð á fyrstu hæð. Rakalyktin yfirgnæfði allt og það eina sem við borðuðum var baguette með tómötum og mozzarella. Þegar ég kom til baka til Íslands þurfti ég að henda töskunum mínum og megninu af fötunum mínum sem lyktuðu af fúkkalykt. Það var því ekki mikill glamúr í þeirri ferð. Hins vegar notaði ég tímann vel í að skoða borgina og kynnast frönsku menningunni sem hefur alltaf heillað mig.“

Mynd/Helgi Ómarsson
Hvernig líkar þér þá að búa í Kaupmannahöfn?

„Borgin er æðisleg. Hún er ekki of stór og maður kemst allra sinna ferða á hjóli. Það er alltaf eitthvað spennandi að gerast hér innan tónlistar og tísku og svo er stutt að fara héðan til að ferðast um Evrópu. Helsti galli við Kaupmannahöfn er kannski að maður hefur ekki fjölskylduna sína nálægt sér og því þarf maður að reiða sig á sjálfan sig. Það er til dæmis ekkert hlaupið að því að fá pössun. Ég hef þó kynnst fullt af frábæru fólki hér sem er ómetanlegt.“



Skipstjórinn á BAST



Hafrún Alda stofnaði bloggsíðu og veftímaritið BAST Magazine árið 2011 ásamt Írisi Dögg Einarsdóttur og Sif Kröyer en stýrir blaðinu ein í dag með hjálp ýmissa samstarfsaðila í bransanum.



Hvaða áherslur eru í blaðinu og hvert eruð þið að stefna með vefútgáfunni?

„Helstu áherslur BAST Magazine eru að kynna skandinavíska tísku, tónlist, listir og menningu og við munum halda því áfram. BAST hefur fengið frábærar móttökur og við erum með stóran fastan lesendahóp. Fram undan eru spennandi samstarfsverkefni þannig að það er nóg að gera á næstunni. Þetta er harður bransi og maður þarf að hafa bein í nefinu. Það er gríðarleg samkeppni á þessum markaði og margir að gera flotta hluti. Blaðið er rekið með auglýsingum og svo fékk BAST styrk þegar það var stofnað. Með nýrri heimsíðu sem fer í loftið í nýju ári verður möguleiki á að hafa auglýsingar á síðunni. Ég þéna ekki fullt af peningum á þessu enn þá en það lítur vel út fyrir að BAST Magazine geti rúllað vel með hækkandi lesendatölum.“

Mynd úr Bast Magazine
Hefurðu velt fyrir þér að gefa út blaðið á prenti?

„Ég hef oft hugsað um að setja BAST í prent, það væri mjög gaman. Tíunda tölublaðið kemur út í febrúar, hver veit nema að maður geri eitthvað skemmtilegt í tilefni þess.“

Hvers vegna skrifið þið á ensku?

„Við vildum alltaf skrifa á ensku svo blaðið væri aðgengilegt sem flestum, og þar af leiðandi höfum við lesendur um allan heim eða í yfir 50 löndum.Við höfum meðal annars lesendur frá Sádi-Arabíu, Brasilíu og Úkraínu svo eitthvað sé nefnt. Það er gaman að sjá hvað það er mikill áhugi utan að frá í því sem er að gerast hérna í litlu Skandinavíu. Ég er með stórt teymi á bak við BAST. Það er meðal annars Ellen Lofts sem er tískuritstjóri, Kristín Larsdóttir Dahl sem er tónlistarritstjóri, Arnar Freyr sem er grafískur hönnuður, Snjólaug Lúðvíksdóttir sem les prófarkir og svo er ég með „freelance“ penna sem skrifa fyrir bæði heimasíðuna og sjálft blaðið. Við erum því mörg sem stöndum á bak við hvert tölublað. Það má kannski segja að ég sé skipstjórinn en BAST væri ekki það sem það er í dag ef ég væri ekki með allt þetta frábæra fólk með mér.“

Hafrún Alda klárar stúdentinn um jólin og segist tilbúin að takast á við hvað sem er í framtíðinni.
Þú hlýtur að vera með gott tengslanet með alla þessa fögru tískuþætti frá Evrópu, er það ekki?

„Okkur berst mjög mikið af tískuþáttum og færri komast að en vilja. Við erum með gott tengslanet en mest af efninu berst frá fólki sem hefur verið að lesa tölublöðin okkar og fylgist með okkur á heimasíðunni og telur að BAST sé góður vettvangur til að koma sinni vinnu á framfæri. Margir hafa svo fengið ný og spennandi verkefni í kjölfarið þannig það er alltaf mjög gaman að fylgjast með fólki vaxa og dafna í bransanum. Við erum í samstarfi við ljósmyndara og stílista, einnig tónlistar- og listafólk víðs vegar að. Oftast eru það nýir aðilar í hverju tölublaði.“ 

Nýlega frumsýnduð þið tískustuttmynd í samstarfi við Narvi Creative. Í hvaða tilgangi var stuttmyndin gerð?

„Narvi Creative hefur unnið að mörgum skemmtilegum verkefnum og okkur hjá BASTi langaði til að gera verkefni með þeim en úr varð tískumyndin Beat Street. Okkur langaði að taka nýjan vinkil á tískuþætti, hafa hann í lifandi formi því það eru margir möguleikar á að kynna tísku í öðru en hefðbundnum tískuþætti. Við fengum herramódelið Zakaria Khiare til að leika aðalhlutverkið en hann hefur unnið fyrir marga stóra hönnuði. Þetta var ótrúlega skemmtilegt verkefni og við erum mjög ánægð með útkomuna. BAST á pottþétt eftir að vinna fleiri verkefni í svipuðum dúr.“

Var skírð 8 ára gömul



Hefur þú alltaf verið meðvituð um tísku og hönnun?



„Ég hef alltaf verið með það á hreinu í hverju ég vil vera, þó ég hafi nú kannski ekki alltaf verið mjög smart. Mín fyrsta minning um það er þegar ég var skírð. Ég var 8 ára gömul og mamma fór með mig til Reykjavíkur að velja skírnarföt. Ég féll alveg fyrir rauðri pilsdragt með hvítum doppum og hárspöng með risastórri rós og mér varð ekki haggað, alveg sama hvað mamma reyndi að sýna mér, það var bara þessi dragt. Ég fékk hana að sjálfsögðu og ég man vel enn í dag hvað mér fannst ég ótrúlega flott í henni.“ 

Af hverju heillar tískubransinn svona mikið?

„Ég hef alltaf heillast mikið af tískubransanum frá því að ég var ung, ég byrjaði að vinna í Morgan í Kringlunni 18 ára gömul. Svo vann ég sem verslunarstjóri í Spútnik í þrjú ár en þar sinnti ég líka innkaupum. Það er alltaf áhugavert að sjá hvað hönnuðir sækja mikinn innblástur í „vintage“ sem sést oft svo greinilega. Tískubransinn hér í Kaupmannahöfn er frekar stór og er fatnaður stór útflutningsvara hér í Danmörku. Danska ríkið passar upp á að styðja vel við bakið á tísku- og menningarheimunum sem hefur skilað sér. Danir státa af þekktum hönnuðum sem selja í fleiri hundruð búðir úti um allan heim. Ég hef alltaf haft gaman af tísku og öllu sem henni fylgir og einhvern veginn þá er allur vinahópurinn meira og minna á kafi í þessum bransa á einn eða annan hátt. Engir tveir dagar eru eins og það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast.

Það hefur verið mikil gróska í íslenskri fatahönnun, áttu einhverja uppáhaldshönnuði, íslenska og erlenda? „Það eru margir hönnuðir að gera frábæra hluti bæði heima á Íslandi og hérna erlendis. Ég fylgist mjög vel með hvað er að gerast og sérstaklega í Skandinavíu. Af íslensku hönnuðunum verð ég að nefna Kalda, Rey og Jör og hérna úti eru það Anne Sofie Madsen, Henrik Vibskov, Asger Juel Larsen og Freya Dalsjö sem eru öll að gera frábæra hluti. Ég er líka alltaf mjög hrifin af tískurisanum ACNE og Alexander Wang klikkar seint.“ 

Mynd/Helgi Ómarsson
Ég get vel eins og hinir



Hafrún Alda situr á skólabekk ásamt því að ritstýra BAST Magazine. Hún lauk ekki stúdentsprófi á tilsettum tíma en segir að skólakerfið í Danmörku bjóði upp á námstækifæri sem ekki voru í boði á Íslandi.

„Ég er að ljúka stúdentsprófi núna um jólin og svo er stefnan tekin á markaðsfræði í febrúar. Ég er að klára stúdentinn svona meira fyrir sjálfstraustið til að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti það eins og allir hinir. Ég var aldrei mikill lærdómshestur þegar ég bjó á Íslandi og skólakerfið í Danmörku er svolítið ólíkt og virðist henta mér betur. Það eru til að mynda yfirleitt bara munnleg próf en ekki þessi týpísku skriflegu próf sem maður þurfti að þreyta heima á Íslandi. Það hefur gengið ótrúlega vel að klára stúdentinn og ég á bara eitt próf eftir. Það verður klárlega skálað í kampavíni og dansað fram á rauðanótt þegar þessum áfanga lýkur loksins. Ég hugsa að markaðsfræði geti nýst mér í allt mögulegt og hún er spennandi og praktískt nám. Ef mér snýst einhvern daginn hugur og ég nenni ekki lengur að vera að vinna við tískubransann þá get ég snúið mér að næstum hverju sem er.“

Bast Magazine forsíða
Hvar verðið þið fjölskyldan um jólin og hvernig eru jólin þín?

„Mamma, fósturpabbi minn og tvö yngri systkini mín búa í Kolding á Jótlandi sem er voða kósý. Við höfum oft verið hjá þeim á jólunum og þar sem við erum öll íslensk þá eru þetta alltaf mjög týpísk íslensk jól, með Rás 1 á fóninum og rjúpu eða önd í matinn með öllu tilheyrandi. Þau eru reyndar örugglega að flytja heim í sumar eftir níu ár í Danmörku, þannig að það verður eflaust svolítið skrítið að hafa þau ekki. Við ætlum að vera á Íslandi yfir jól og áramót og erum mjög spennt því við við náum að slappa af og hitta alla fjölskylduna. Svo förum við alltaf í Hrútafjörðinn þar sem amma og afi búa. Ég verð reyndar í próflestri svo það setur eitthvert strik í reikninginn þar sem ég er að fara í próf í janúar. Annars er ég voða lítið að stressa mig á jólunum, það er svona happa og glappa ef ég næ að skrifa jólakort. Við Erpur skelltum reyndar í piparkökur um daginn sem er mikið afrek út af fyrir sig.“

Skoðið Bast Magazine nánar hér.

Beat Street tískustuttmyndin sem að Bast Magazine vann í samstarfi við Narvi Creative með danska herramódelinu Zakaria Khiare.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.