Lífið

Hlaut fyrstu verðlaun

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Birgit er stolt af öllum verkefnum sínum og lítur á hvert og eitt eins og barnið sitt.
Birgit er stolt af öllum verkefnum sínum og lítur á hvert og eitt eins og barnið sitt. MYND/Úr einkasafni
„Það var verðlaunaafhending og svona í kringum þetta, en það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér í vinnunni að ég komst ekki. Ég sendi þeim samt upptöku þar sem ég þakka fyrir mig. Mér finnst hundleiðinlegt að hafa ekki komist. Loksins þegar maður fær tækifæri á að komast til Hollywood!“ segir íslenska kvikmyndatökukonan Birgit Guðjónsdóttir sem hlaut fyrstu verðlaun á Women‘s International Film & Television Showcase fyrir bestu kvikmyndatökuna á dögunum.

Birgit hefur verið búsett í Þýskalandi síðastliðin tólf ár, en hún hefur unnið við stórmyndir á borð við Goodbye Lenin, The Bourne Supremacy og Our Grand Despair, sem hún fékk meðal annars tilnefningu til Gullbjarnarins fyrir á kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar 2011.

Aðspurð segist hún ekki geta gert upp á milli verkefna.

„Ég er alltaf stolt af því sem ég geri. Þetta eru eins og börnin manns, ekki hægt að gera upp á milli,“ bætir hún við.

Birgit hóf að vinna við kvikmyndagerð árið 1984, en þá hafði hún nýverið lokið fjögurra ára ljósmyndanámi í Austurríki. Hún hefur aldrei unnið að alíslenskri mynd, en langar mikið til þess.

„Ég hef unnið verkefni á Íslandi, en þá fyrir erlend framleiðslufyrirtæki. Til dæmis skaut ég eina heimildarmynd sem er verið að sýna núna í Þýskalandi, en hún fjallar um þýskar konur sem komu til Íslands árið 1949. Þá setti landbúnaðarráðuneytið auglýsingu í dagblað í norðurhluta Þýskalands því það vantaði vinnukonur úti á landi. Þá komu 200 konur frá Þýskalandi og stór hluti þeirra settist hér að og fór aldrei aftur.“

Það er í nægu að snúast fyrir Birgit um þessar mundir.

„Næst á dagskrá er heimildarmynd um svartar söngkonur í Bandaríkjunum sem ég er að skjóta fyrir austurrískt fyrirtæki og svo er ég sennilega að fara að taka mynd næsta sumar á Íslandi, fyrir svissneskt fyrirtæki. Það er aðeins of snemmt að ræða um það, en ég er mjög spennt fyrir því að koma heim,“ segir Birgit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.