Lífið

„Eini svona gítarinn í heiminum“

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Bubbi Morthens er hæstánægður með nýja gítarinn.
Bubbi Morthens er hæstánægður með nýja gítarinn. fréttablaðið/gva
„Þetta er eini svona gítarinn í heiminum,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens, sem fékk á dögunum í hendurnar gítar frá einum virtasta gítarframleiðanda í heimi, Martin & co en hann er sérsmíðaður fyrir Bubba.

Um er að ræða einn fegursta kassagítar sem til er, þá er hljómur hljóðfærisins eftir útlitinu. Gítarinn er vel skreyttur og hvert einasta smáatriði úthugsað. „Hver hluti gítarsins er sérvalinn, viðartegundir og öll listaverkin eru öll úthugsuð. Það tók um eitt ár að smíða gítarinn,“ útskýrir Bubbi.

Á gítarhálsinum er nafn eigandans úr ekta perlumóðuskel.fréttablaðið/gva
„Hann er úr nokkrum viðartegundum líkt og rosewood, snakewood sem er í öllum bindingum. Skreytingarnar eru úr ekta perlumóðuskel og hálsinn úr ebony-við. Til að geta fengið nógu langan ebony-við í hálsinn þarf að nota allavega hundrað ára gamalt tré,“ útskýrir Andrés Helgason eigandi verslunarinnar Tónastöðvarinnar, sem er umboðsaðil Martin & co á Íslandi.

Á hálsi gítarsins eru tvö falleg listaverk, annars vegar nafn Bubba og lax, sem er úr perlumóðuskel. „Laxinn er ljósmynd úr breskri veiðibók en því miður veiddi ég hann ekki sjálfur. Ég spila mína fyrstu tónleika með hann núna á fimmtudaginn í Bíóhöllinni á Akranesi, það verður ákaflega gaman,“ bætir Bubbi við.

Framundan eru tónleikar í Hofi á Akureyri á laugardag og svo verða árlegu þorláksmessutónleikar Bubba í Eldborgarsalnum í Hörpu á Þorláksmessukvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.