Lífið

Bjargaði manni sem lá á götunni á Austurvelli

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jón Bjarni Jónuson kom rænulausum manni til bjargar síðastliðinn sunnudag.
Jón Bjarni Jónuson kom rænulausum manni til bjargar síðastliðinn sunnudag. fréttablaðið/daníel
„Ég var á gangi við Austurvöll, skammt frá Alþingishúsinu og þar lá hann á jörðinni,“ segir hinn 19 ára gamli Jón Bjarni Jónuson. Hann gerði góðverk síðastliðinn sunnudag þegar hann kom að manni sem var í mjög slæmu ástandi og lá á götunni.

„Ég varð strax smeykur um ástand hans því hann var rænulaus. Ég tók í höndina á honum og spurði hvort allt væri í lagi,“ útskýrir Jón Bjarni sem fann mikið til með manninum.

Jón Bjarni aðstoðaði manninn á fætur og gekk með hann á pítsastað í grenndinni, sem kallast Gamla smiðjan, og gaf manninum að borða þar. „Ég setti höndina hans á öxlina mína og gekk með hann. Ég var reyndar svekktur yfir því að hann borðaði bara hálfa pítsu, ég hefði viljað gefa honum meira.“ Maðurinn var mjög þakklátur og grét af gleði.

Maðurinn gæðir sér hér á pítsu á Gömlu smiðjunni.mynd/einkasafn
Eftir að þeir félagar höfðu snætt saman pítsu og drukkið kók, spjölluðu þeir mikið. „Við spjölluðum talsvert og hann sagði mér meðal annars að hann væri gamall sjómaður.“

Eftir góða stund á Gömlu smiðjunni gekk Jón Bjarni með manninn í gistiskýlið við Þingholtsstræti, þar sem tekið var vel á móti honum. „Starfsmenn gistiskýlisins spurðu hvort ég vildi ekki ættleiða manninn. Þá hló ég dátt,“ segir Jón Bjarni léttur í lund.

Margir mættu taka góðverk Jóns Bjarna til fyrirmyndar og sérstaklega fyrir jólin. „Ég er ekkert svakalega mikið jólabarn en mér þykir alveg frábært að geta gert góðverk og sérstaklega núna þegar nær dregur jólum.“

Þetta er hins vegar ekki fyrsta góðverkið sem Jón Bjarni gerir, því fyrir nokkrum árum kom hann dreng til hjálpar í Breiðholti, sem hafði orðið fyrir einelti. „Ég lenti sjálfur í einelti þegar ég var yngri og þótti virkilega gott að geta hjálpað drengnum.“

Góðverk Jóns Bjarna hefur vakið mikla athygli á netinu en á einum sólarhring höfðu yfir tvö þúsund manns lækað stöðuuppfærsluna sem hann setti á fésbókarsíðu sína á sunnudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.