Lífið

Leiklestur með rjóma íslenskra leikkvenna á afmælisdaginn

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hlín fékk þessar sex leikkonur til að leiklesa á afmælisdeginum sínum.
Hlín fékk þessar sex leikkonur til að leiklesa á afmælisdeginum sínum.
Hlín Agnarsdóttir leikstjóri hélt upp á sextugsafmæli sitt með afar nýstárlegum hætti um helgina. Hún stóð þá fyrir leiklestri á leikverki sínu sem ber titilinn Oní uppúr. Sex afar vinsælar leikkonur lásu verkið: Elva Ósk Ólafsdóttir, Steinunn Ólafsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Edda Björgvinsdóttir og Harpa Arnardóttir. Hlín segir þetta hafa verið afar skemmtilegan afmælisdag.

„Þetta var ólýsanlegt. Þarna var rjóminn af íslenskum leikkonum saman kominn. Margrét Guðmundsdóttir var líka að fagna áttræðisafmælinu sínu, hún átti afmæli fyrir stuttu. Þannig að þetta var sannkölluð stórafmælissýning,“ segir Hlín. Hún hefur reynt að fá verkið sýnt en hefur ekki enn haft erindi sem erfiði. „Þetta verk er óður til sundmenningar íslenskra kvenna, það gerist allt í kvennaklefa í sundlaug. Ég hef mikið reynt til þess að fá það sýnt og þessi leiklestur var eiginlega mín síðasta tilraun, þarna var ég að kveðja verkið.“ Hlín segist ekki vita af hverju það gangi svona illa að fá verkið sýnt.

„Ég veit ekki hvort þetta sé ótti við að þarna séu konur á öllum aldri. Fyrsta spurningin sem ég fæ alltaf í sambandi við verkið er hvað ég ætli að gera í nektinni. Ég er ekki að pæla í neinni nekt. Nektin er bara hluti af lífinu,“ segir Hlín. Hún heldur þó enn í vonina og telur verkið eiga erindi við almenning. „Auðvitað er það mín helsta ósk að geta sett þetta upp. Ég fann það og skynjaði á viðbrögðum þeirra sem voru viðstaddir leiklesturinn að þetta virkar mjög skemmtilega,“ segir Hlín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.