Skoðun

Stopp: Stöðvum kynbundið ofbeldi

Guðrún Ögmundsdóttir og Soffía Sigurgeirsdóttir skrifar
Landsnefnd UN Women á Íslandi hefur staðið fyrir auglýsingaherferð hérlendis til að vekja athygli á einni alvarlegustu birtingarmynd kynbundins ofbeldis: sýruárásum. Auglýsingaherferðin hefur vakið mikla athygli. Þar sitja fyrir þekktar íslenskar konur en andlitum þeirra hefur verið skeytt saman við andlit indverskra kvenna sem lifað hafa af sýruárásir.

Myndirnar eru átakanlegar en vekja okkur til umhugsunar um hversu djúpstæð áhrif sýruárásir hafa á líf kvenna og stúlkna.

Sýruárásir tíðkast um allan heim en eru hvað algengastar í Suður- og Suðaustur-Asíu.

Árlega er tilkynnt um 1.500 sýruárásir í heiminum en ekki er vitað um raunverulega tíðni árásanna þar sem að gífurlegur fjöldi mála lítur aldrei dagsins ljós. Helsta ástæðan er líklega að ekki er litið á sýruárásir sem alvarlegan glæp né mannréttindabrot. Eitt er þó ljóst: að fórnarlömbin eru í 80 prósent tilvika konur eða ungar stúlkur.

Algengt er að konur verði fyrir sýruárásum fyrir að óhlýðnast fjölskyldu sinni, eiga í ástarsamböndum, hafna bónorðum eða svara ekki smáskilaboðum. Líf kvenna er lagt í rúst á aðeins nokkrum sekúndum en í kjölfar slíkrar árásar fylgir margra ára læknismeðferð og mikil félagsleg einangrun. Við höfum heyrt sögur af konum sem fóru ekki út úr húsi í átta ár.

UN Women vinnur að því um allan heim að uppræta sýruárásir á margvíslegan hátt en lykilatriði í þeirri baráttu er að draga vandamálið fram í dagsljósið, hefta aðgengi að sýru, herða refsingar yfir gerendum og draga úr félagslegri einangrun þeirra sem fyrir árásunum verða.

Mikilvægt er að stuðla að hugarfarsbreytingu meðal almennings, lögreglu, lögmanna og dómara. Sýruárásir eiga ekki og mega ekki vera samþykktar sem eðlileg viðbrögð, hefnd eða jafnvel réttur manna.

UN Women á Íslandi stendur fyrir Fiðrildafögnuði í Hörpu í kvöld. Á fögnuðinum gefst landsmönnum tækifæri til þess að leggja konum lið sem lifað hafa af sýruárásir en allur ágóði af kvöldinu rennur til verkefna UN Women. Með því að mæta í Hörpu í kvöld leggur þú lóð þín á vogarskálar jafnréttis og réttlætis í heiminum. Saman getum við haft fiðrildaáhrif.




Skoðun

Sjá meira


×