Skoðun

Einu sinni var…

Úrsúla Jünemann skrifar
Einu sinni var lítil þjóð sem þótti vænt um landið sitt og langaði að vernda og varðveita sérstaka og fallega náttúru þess fyrir komandi kynslóðir og fólk alls staðar að úr heiminum. Íbúar þessa litla lands þóttu mjög duglegir og vinnusamir og vildu gera vel.

Svona gæti fallegt ævintýri byrjað, en raunin er önnur:

Alveg frá því að menn byggðu þetta land var gengið á forðann, á auðlindirnar sem voru til staðar. Menn eyddu skóg- og kjarrlendi í stórum stíl þangað til næstum ekkert var eftir og auðn blasti við. Menn ofveiddu fiskistofna þangað til allt var búið og einungis drauga-bæir voru eftir sem sögðu frá gullgrafaraæði þeirra sem vildu gerast ríkir á einni nóttu.

Menn vildu finna olíu, búa til stórskipahöfn og virkja hverja einustu sprænu á landinu. Menn vildu líka sigra heiminn í fjármálageiranum og töldu þjóðinni trú um að á þessu litla landi byggju snillingar sem væru miklu gáfaðri en annars staðar. Þessi spilaborg hrundi eins og margt annað. Leitt var bara að þeir sem áttu það síst skilið þurftu að borga brúsann. Heilbrigðiskerfið hrundi, menntamálin sátu á hakanum og starfsgreinar sem héldu þjóðfélaginu uppi þurftu að berjast fyrir tilveru sinni.

En viti menn: Þessi litla þjóð var svo trúgjörn að hún kaus aftur menn yfir sig sem lofuðu öllu fögru og gátu svo ekki staðið við loforðin sín. Þetta voru sömu menn sem predikuðu um óheft frelsi, hagvöxt, lægri skatta og meiri eyðslu til þess að koma „hjólum atvinnulífsins“ af stað.

Málin sem snertu vernd einstakrar náttúru í þessu fallega landi voru sett aftast á dagskrá. Nýir og breiðir vegir sem ekki var talin þörf á voru settir í forgangsröð í staðinn fyrir að hlúa að velferðarmálunum. Og hugrakkir menn sem létu ekki allt yfir sig ganga og mótmæltu voru handteknir og settir í steininn.

Gott fólk: Ævintýri þessa litla lands er ekki búið. Þar er nóg til af veraldlegum gæðum þannig að allir gætu lifað góðu lífi. En einfeldni og trúgirni þarf að víkja fyrir gagnrýninni hugsun og skynsemi. Gefum þeim sem lugu sig inn í valdastöður frí og látum ævintýrin gerast.




Skoðun

Sjá meira


×