Skoðun

Sorgin tekur tíma

Halldór Reynisson skrifar
Allraheilagra- og allrasálnamessa hafa fengið nýtt líf í kirkju og samfélagi síðustu árin sem minningardagar látinna. Sá siður hefur breiðst út í kirkjustarfi hér á landi að gefa þeim sem hafa misst einhvern nákominn tækifæri til að koma og heiðra minningu þeirra með því að tendra ljós í kirkjunni. Slíkir siðir sem tengjast dauðanum hjálpa fólki að takast á við sorgina.

Það er í anda fagnaðarerindis kristinnar trúar að hlúa að syrgjendum. Jesús segir í fjallræðunni „sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða“.

Þörf þeirra sem hafa misst er oft mikil. Eftir því sem missirinn er nær, eftir því sem hann er ótímabærari eða skyndilegri, þeim mun meira verður áfallið og sorgin í kjölfarið.

Sleit mar

bönd minnar ættar

snaran þátt

af sjálfum mér

Segir Egill Skallagrímsson í Sonartorreki þegar hann tekst á við dauða sonar síns Böðvars. Reynsla skáldsins kallast á við reynslu allra þeirra sem missa ótímabært einhvern sem stendur þeim nærri. Eftir slíkt andlát getur það tekið þau mörg ár að ná aftur jafnvægi á líf sitt og þó hverfur sorgin aldrei.

Þær stofnanir sem veita syrgjendum stuðning eru einkum heilbrigðiskerfi og þjóðkirkjan, einnig í nokkrum mæli skóli og félagsþjónusta. Í hugum alls þorra fólks er sá stuðningur sem prestar og djáknar veita syrgjendum mikils virði og fólk er oftast mjög þakklátt fyrir.

Fagfólk sem kemur að stuðningi við syrgjendur hefur gert sér grein fyrir að fylgja þarf syrgjendum mikið lengur en áður var talið. Þegar um erfið, ótímabær andlát er að ræða, s.s. við barnsmissi, sjálfsvíg, andlát maka eða foreldris þá varir fylgdin stundum nokkur ár.

Kappkostum að sinna vel köllun okkar að ganga í fótspor Krists, sem fagfólk í stofnunum samfélagsins, sem aðstandendur og vinir og uppfylla þannig boð hans um að hugga syrgjendur.




Skoðun

Sjá meira


×