Innlent

Borgarfulltrúi segir bætur letja til vinnu

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, segir að kostnaður hverrar fjölskyldu í Reykjavík vegna fjárhagsaðstoðar hafi aukist um 250 prósent frá árinu 2008.

Þá hafi þessi kostnaður numið rúmum 52 þúsundum króna á ári á hverja fjölskyldu, en sé kominn upp í rúmar 130 þúsund krónur.

Tekist var á um málið á fundi velferðarráðs borgarráðs á fimmtudag.

Samkvæmt lögum er sveitarfélögum skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem geta ekki séð sér og sínum farborða án aðstoðar.

Aðstoðin er óháð barnafjölda þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna. Vaxtabætur og húsaleigubætur mæta mismunandi kostnaði vegna húsnæðis.

Áslaug Friðriksdóttir
Áslaug segir að stærstu mistök meirihlutans hafi komið fram í upphafi kjörtímabilsins þegar ákveðið var að hækka fjárhagsaðstoð þrátt fyrir að augljóst væri að slíkt myndi draga úr fjárhagslegum hvata fólks til að fara út á vinnumarkað.

„Maður sér hvert stefnir. Sjötíu prósent þeirra sem fá fjárhagsaðstoð eru undir fertugu. Það er ákveðin linkind gagnvart þessu kerfi því fólk þarf ekki að inna af hendi neinar skyldur eða láta eitthvað á móti til samfélagsins til að fá fjárhagsaðstoð.“

Áslaug segir að munurinn á milli þess sem fólk fær í fjárhagsaðstoð og lámarkslauna sé of lítill. Launamaðurinn borgi skatta og skyldur. Þegar upp sé staðið sé munurinn um átta þúsund krónur á milli þess sem launamaðurinn fær og þess sem þiggur fjárhagsaðstoð.

Ekki náðist í Björk Vilhelmsdóttur, formann velferðarráðs, við vinnslu fréttarinnar en fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins létu bóka á fundi velferðarráðs að heildarupphæð fjárhagsaðstoðar hefði fyrst og fremst hækkað undanfarin ár vegna aukins fjölda notenda.

Aukinn fjöldi þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar haldist fyrst og fremst í hendur við atvinnuleysistölur. 

„Með minnkandi atvinnuleysi fari þeim sem þurfa fjárhagsaðstoð einnig fækkandi.“ Þá segir hún að samfara mikilli verðbólgu í kjölfar gengishruns krónunnar hafi kostnaður nauðsynja hækkað og ekki sé forsvaranlegt að fjárhagsaðstoð dugi ekki fyrir brýnustu nauðsynjum.

Í bókun meirihluta borgarstjórnar í velferðarráði segir að fjölgun þeirra sem þurfa fjárhagsaðstoð haldist í hendur við fjölda atvinnulausra. Meirihlutinn telur að þeim sem þurfa aðstoð fækki þegar atvinnulausum fækkar.fréttablaðið/stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×