Innlent

Harma að Hrísey og Grímsey fengu engan byggðakvóta

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Grímsey og Hrísey, sem eru nú hluti sveitarfélagsins Akureyrar, standa frammi fyrir alvarlegum vanda segir bæjarráðið. Myndin er frá Grímsey.
Grímsey og Hrísey, sem eru nú hluti sveitarfélagsins Akureyrar, standa frammi fyrir alvarlegum vanda segir bæjarráðið. Myndin er frá Grímsey. Fréttablaðið/Björn Þór
Bæjarráð Akureyrar ætlar að sækja um sérstakar aflaheimildir til Byggðastofnunar vegna Hríseyjar.

Í bókun bæjarráðsins segir að Alþingi hafi samþykkti 25. júní að Byggðastofnun ráðstafi næstu fimm fiskveiðiár aflaheimildum til að „styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi“.

Kveðst bæjarráðið harma þá ákvörðun Byggðastofnunar að taka ekki tillit til Hríseyjar og Grímseyjar viðð nýtingu þessara aflaheimilda. Hrísey og Grímsey standi frammi fyrir miklum vanda, til dæmis fólksfækkun vegna samdráttar og skorts á aflaheimildum.

„Byggðalögin eru fámenn, atvinnutækifærin fá og byggist búseta þar að stórum eða öllum hluta á sjávarútvegi. Hrísey og Grímsey eru sem slíkar sérstök atvinnusvæði þótt þær og Akureyrarbær hafi sameinast í eitt sveitarfélag þar sem ekki er auðvelt eða mögulegt fyrir íbúa að sækja vinnu út fyrir svæðið,“ segir bæjarráðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×