Innlent

15% af brennisteinsvetni Hellisheiðarvirkjunar verði fargað með nýrri aðferð

Svavar Hávarðsson skrifar
Förgun skiljustöðvar samsvarar magni brennisteinsvetnis frá einni aflvél.
Förgun skiljustöðvar samsvarar magni brennisteinsvetnis frá einni aflvél. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrirætlanir Orkuveitu Reykjavíkur um að reisa skiljustöð við Hellisheiðarvirkjun mæta engri andstöðu hjá sveitarfélaginu Ölfusi. Skipulagsstofnun fór fram á umsögn sveitarfélagsins í kjölfar umsóknar OR um byggingarleyfi.

Bæjarstjórn sveitarfélagsins er þvert á móti vongóð um að verkefnið, Sulfix II, verði til þess að OR nái að uppfylla skilyrði um loftgæði á virkjunarsvæðinu, eins og segir í umsögn.

Bygging gasskiljustöðvar við Hellisheiðarvirkjun hefur það að markmiði að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar. Smíðinni á að ljúka í mars 2014. Verkið kostar rúmar 290 milljónir króna.

Smíðin er þáttur í SulFix-verkefni Orkuveitunnar og hinna orkufyrirtækjanna á Íslandi sem vinna raforku úr jarðhita; Landsvirkjunar og HS Orku. Markmið þess er að þróa og byggja hagkvæmar lausnir svo starfsemi jarðgufuvirkjana fyrirtækjanna uppfylli ákvæði reglugerðar um brennisteinsvetni í andrúmslofti, sem sett var árið 2010.

Niðurstöður tilraunaverkefnis SulFix I, sem er nýlokið, þar sem fargað var um 2% af brennisteinsvetnisgasi frá Hellisheiðarvirkjun, benda til þess að á tilteknu dýpi bindist það við steindir í berginu og falli út sem súlfíðsteindir. Fyrirhuguð áform SulFix II gera ráð fyrir að fargað verði um 15% af brennisteinsvetnisgasi frá Hellisheiðarvirkjun á þennan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×