Skoðun

Stendur læknirinn þinn með þér?

Matthildur Kristmannsdóttir skrifar
Skilur læknirinn hvað ég er að segja? Við erum að tala um það dýrmætasta sem ég á, heilsuna mína! Þetta hefur verið hugsun mín í mörg ár og erfitt að bera þessa tortryggni eftir sára reynslu sem mig langar að lýsa hér í stuttu máli.

Árið 2000 urðu þáttaskil í lífi mínu þegar ég greindist með krabbamein í móðurlífi en fram að þeim tíma hafði ég haft góða heilsu sem ég var þakklát fyrir. Ég fór í stóra aðgerð sem gekk vel og ég var mætt í vinnu 6 vikum síðar. Lífið mitt var ekki alltaf auðvelt, það voru skin og skúrir. Á tímabili gerði hellidembu og ég varð döpur, mér fannst ég ekki ráða við aðstæður og hafði lítinn stuðning í mínu nærumhverfi svo ég leitaði mér aðstoðar hjá geðlækni árið 2002. Það hafði reynst mér vel mörgum árum áður.

Árið 2004 hætti ég að mæta hjá geðlækninum þar sem ég var ekki nógu sammála greiningu og meðferð hans og byrjaði hjá öðrum geðlækni í ársbyrjun 2005. En hann tók undir greiningu fyrri geðlæknis og bætti við fleiri greiningum og lyfjum. Ég hélt áfram að mæta til hans einu sinni í mánuði þrátt fyrir að vera talsvert hugsi yfir þessu öllu, ég fann jú að eitthvað var ekki eins og það átti að vera hjá mér. Á þessum tíma dró verulega af mér, ég datt út af vinnumarkaði og lífið varð stöðugt erfiðara. Var um tíma hætt að geta sinnt mínum grunnþörfum og einangraðist heima í sófanum.

Í febrúar árið 2007 fór ég í magaspeglun vegna langvarandi verkja í kvið, 45 mánuðum síðar fór ég ristilspeglun og þá kom í ljós að ég var með ristilkrabbamein sem útskýrði kviðverkina. Á þessum langa tíma sem leið frá magaspegluninni þar til ég fékk ristilspeglunina hitti ég fjölmarga lækna og gerði ítrekaðar tilraunir til að lýsa fyrir þeim veikindum mínum en allt kom fyrir ekki. Einn lækni hitti ég oftar en aðra en það var geðlæknirinn minn sem ég hitti alltaf einu sinni í mánuði. Í þessa 45 mánuði hitti ég hann því 45 sinnum og maður skyldi ætla að hann hafi því fylgst nokkuð vel með hvernig heilsu minni hrakaði. Meðferð hans gagnaðist síður en svo, þrátt fyrir sífellt fleiri sjúkdómsgreiningar og lyfjategundir.

Á þessum 45 mánuðum hitti ég líka ótal fleiri lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfa, iðjuþjálfa og félagsþjónustu og var lögð tvisvar inn á sjúkrahús í samtals 7 vikur og fór a.m.k. fjórum sinnum með sjúkrabíl á bráðamóttöku í Fossvogi. Það var í slíkri heimsókn síðla árs 2010 að ég neitaði að láta útskrifa mig og heimtaði almennilegar rannsóknir. Í sjúkraskýrslu segir svo frá: „Útskýrt er fyrir henni að búið sé að útiloka að eitthvað hættulegt sé á seyði“ og í sömu skýrslu stendur „Hún er treg til að fara“. Ég vil gjarnan að það komi fram að ég var meira en treg til að fara, ég neitaði að fara. Þegar ég loks fékk loforð um betri rannsóknir þá samþykkti ég að fara og bað um hjólastól til að komast út því ég stóð ekki í fæturna en þá var mér sagt að ég gæti gengið sjálf. Það var ekki útilokað að eitthvað hættulegt væri á seyði, rannsóknin sem ég fékk leiddi svo í ljós hættulegt ástand; ristilkrabbamein á stigi 3c.

Það er erfitt að sætta sig við svona vinnubrögð þegar ég þarf nú að takast á við varanlegt heilsutjón í kjölfarið. Mismunandi heilbrigðisstarfsfólk sem kom að mínu máli, prófessor, læknar og hjúkrunarfólk, hafði rangt fyrir sér, ég var með órannsakaðan ristil og þar var stórt krabbameinsæxli sem hafði komið í veg fyrir að ég gæti lifað eðlilegu lífi árum saman.

Ég, og allir sem treysta á heilbrigðisþjónustu, eiga skilið betri meðhöndlun og að starfsfólk í heilbrigðisþjónustu sýni vandaðri vinnubrögð.

Ég mun berjast áfram og hvet þig lesandi góður að gera það sama ef þú kannast við þetta í þínu lífi. Ef náinn aðstandandi eða vinur tjáir sig um sams konar vinnubrögð þá er tími til komin að veita þeim liðsinni þitt. Enginn á að geta ráðskast með svo dýrmæta eign sem heilsan okkar er. Það er eðlilegt og heimilt að sýna tortryggni ef við erum ekki sátt við stöðuna. Hvað annað getum við gert?




Skoðun

Sjá meira


×