Skoðun

Ytra fullveldi

Bjarni Már Magnússon skrifar

Algengt er þessi misserin að vísa í hugtakið fullveldi máli sínu til stuðnings þegar rætt er um samskipti við erlend ríki og alþjóðastofnanir. Oft vill þó gleymast að í hugtakinu felst vald til að gera samninga við önnur ríki og gerast aðili að alþjóðastofnunum.



Fyrir níutíu árum, þann 17. ágúst 1923, tæpum fimm árum eftir að Ísland varð fullvalda, kvað Fasti alþjóðadómstóllinn, fyrirrennari Alþjóðadómstólsins í Haag, upp dóm í hinu svonefnda S.S. Wimbledon-máli. Umfjöllun dómsins um fullveldishugtakið er fyrir löngu orðin sígild og oft á tíðum vísað til hennar í fræðaskrifum sem og af alþjóðlegum dómstólum. Í málinu þurfti dómstóllinn að taka afstöðu til spurningarinnar hvernig ríki gæti verið fullvalda og á sama tíma skuldbundið alþjóðalögum með samningum við önnur ríki. Í stuttu máli, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ríki sem tekur á sig skuldbindingar með þjóðréttarsamningi væri ekki að skerða fullveldi sitt, heldur að nota það.



Legið fyrir í 90 ár

Dómstóllinn tók skýrt fram að hann hafnaði, yfirhöfuð, að líta bæri á þjóðréttarlegar samningskuldbindingar ríkis um ákveðnar athafnir eða athafnaleysi sem skerðingu á fullveldi þess. Vissulega legðu samningsskuldbindingar kvaðir á framkvæmd fullveldisréttar ríkis, í þeim skilningi að þær skuldbinda ríki til að framkvæma þær með ákveðnum hætti. Aftur á móti væri rétturinn til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar einn af eiginleikum fullveldis ríkja.



Nú hefur sá skilningur legið fyrir í níutíu ár að þegar ríki tekur á sig skuldbindingar af þjóðréttarlegum toga sé ríkið að nota fullveldið en ekki afsala sér því. Af einhverjum sökum virðist þessu ekki mikið flaggað þrátt fyrir vinsældir hugtaksins í íslenskri þjóðmálaumræðu. Vonandi að einhver breyting verði þar á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×