Skoðun

Engir tveir nemendur eru eins

Guðrún Helga Sederholm skrifar
Undanfarið hefur verið bent á að þjónusta þurfi nemendur í framhaldsskólum betur en gert hefur verið þegar kemur að persónulegum málum þeirra. Eitthvað hefur verið um að skólameistarar hafi brugðist við þessu með því að fá sálfræðinga til að þjónusta nemendur.

Umræðan er komin af stað og er það gott með tilliti til nemenda. Ég hef verið óþreytandi í að benda stjórnvöldum og öðrum á mikilvægi þess að nemendum gefist kostur á slíkri þjónustu nú síðast í mars og apríl birtust greinar eftir mig um einmitt þetta hér í Fréttablaðinu.

Ég hef farið á fund fyrrverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, með erindið, var kölluð fyrir menntamálanefnd Alþingis, 17. mars 2008, til að veita ítarlegar upplýsingar vegna frumvarpa sem voru til umræðu um leik-, grunn- og framhaldsskólalög.

Formaður nefndarinnar, Sigurður Kári Kristinsson, sagði eftir að hafa hlýtt á orð mín, að nefndin þyrfti greinilega að skoða ráðgjafarmál í skólum enn frekar. Margar álitsgerðir hef ég skrifað og skilað til Alþingis og aldrei legið á skoðun minni þegar ég hef unnið að stofnun og þróun náms- og starfsráðgjafar fyrir menntamálaráðherra, Svavar Gestsson og Björn Bjarnason, með tíu ára millibili, alltaf lagt áherslu á að þjónusta þyrfti nemendur í persónulegum málum ekki síður en í námstengdum málum.

Þarf rétta greiningu

Nemandi sem á í erfiðleikum í skóla þarf að fá rétta greiningu á vanda sínum, hvort sem hann er námstengdur eða af öðrum orsökum. Hingað til hefur aðeins verið boðið upp á náms- og starfsráðgjöf í grunn-og framhaldsskólum, innan skólans, sem er gott í sjálfu sér en engan veginn nægjanlegt til að tryggja öryggi og velferð nemandans.

Nú hafa augu skólameistara opnast en nokkrir þeirra og nokkrir skólastjórar grunnskóla hafa valið að ráða félagsráðgjafa í stöður náms-og starfsráðgjafa til að bregðast við þörf nemenda fyrir persónulegri ráðgjöf á undanförnum árum.

Starfslýsing félagsráðgjafa á fræðslu- og skólasviði hefur verið til í nokkur ár og í henni segir m.a.: „Félagsráðgjafi er lögverndað starfsheiti. Heildarsýn er leiðarljós í allri vinnu félagsráðgjafa. Hún felur í sér að gaumgæfa félagslegar, tilfinningalegar og námslegar aðstæður einstaklinga sem þeir vinna með hverju sinni.“

Hún fjallar um persónulega ráðgjöf, greiningu á vanda, skólaráðgjöf, forvarnir, foreldraráðgjöf og ráðgjöf við skólastjórnendur og kennara svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess sinna félagsráðgjafar allri almennri vernd barna og ungmenna og eru sérfræðingar á því sviði t.d. með þátttöku í stýrihópum, nefndum og ráðum sem fjalla um stefnumótun.

Vandi nemanda sem kvartar undan leti og einbeitingarskorti getur átt sér allt aðrar ástæður en námstengdar. Hann býr hugsanlega við ofbeldi, einelti, fátækt, sjálfsvígshugleiðingar, kvíða, þunglyndi, hefur verið nauðgað, er í neyslu og svo mætti lengi telja. Rétt greining á vanda hans er frumskilyrði fyrir viðeigandi þjónustu.

Skóli sem getur boðið nemendum upp á þjónustu félagsráðgjafa og náms- og starfsráðgjafa sýnir ábyrgð í verki. Þá er nokkuð tryggt að nemandanum verður vísað í rétt úrræði ef ekki er hægt að fást við vandann innan skólans.

Ég leyfi mér að fullyrða, á grundvelli áratuga reynslu af vinnu með börnum og unglingum, að brottfall er beintengt þjónustuleysi á báðum skólastigum, grunn- og framhaldsskóla.




Skoðun

Sjá meira


×