Skoðun

Vindhögg

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Í síðasta helgarblaði DV var grein eftir Baldur Eiríksson, blaðamann útgáfufélagsins. Þar gerir blaðamaðurinn að umtalsefni dóm Hæstaréttar í máli nr. 215/2013, uppkveðinn 19. júní 2013, þar sem tveir menn voru réttilega sýknaðir af kynferðisbroti.



Í greininni víkur blaðamaðurinn að Hæstarétti og fjórum dómurum Hæstaréttar með órökstuddum fullyrðingum, hæpnum lagaskilningi og tilvitnunum í huglæga afstöðu nafngreindra einstaklinga og talsmanna hagsmunasamtaka. Þá finnst blaðamanninum það ljóður á dómurunum fjórum að vera karlkyns.



Blaðamaðurinn sá ekki ástæðu til þessa að leita til verjenda mannanna eftir viðbrögðum við dóminum eða til annarra sem hugsanlega eru annarar skoðunar en blaðamaðurinn og viðmælendur hans eins og vandaðir blaðamenn gera.



Hvers vegna má merkja af fyrirsögn greinarinnar „Fornaldarleg viðhorf í kynferðisbrotamálum“, undirfyrirsögn „Fjórir karlkyns dómarar sýknuðu margdæmda brotamenn“ og millifyrirsögnum „Lítil réttarvernd/Hryllilegar lýsingar/Trúðu stúlkunni/Óvíst um bata/Aukaatriði aðalatriði/Ekki fyrir brotaþola og Femínistar ósáttir“. Það var því ekki ætlun blaðamannsins að skrifa hlutlæga grein um niðurstöðu Hæstaréttar í málinu.



Hér standa því órökstuddar staðhæfingar blaðamannsins og huglæg afstaða viðmælenda hans gegn vel- og ítarlega rökstuddum dómi Hæstaréttar sem sýknaði mennina réttilega af kynferðisbrotinu. Óvönduð greinaskrif af þessu tagi kunna að vera til þess ætluð að hafa áhrif á skoðanir almennings eða koma sér í mjúkinn hjá eigendum umræðunnar um kynferðisbrotamál, en hafa að sjálfsögðu ekkert vægi gegn vel rökstuddri úrlausn Hæstaréttar.



Skrif blaðamannsins dæma sig því sjálf.




Skoðun

Sjá meira


×