„Við viljum fá sem flesta til að mæta en við ætlum að vera með viðburði á torginu á hverjum degi nema á föstudögum frá 8.-28. júlí, milli klukkan 14 og 16. Hugmyndin er að bjóða fólki, og þá aðallega börnum, upp á mannlífstorg, einmitt á þeim tíma sem frístundaheimili eru lokuð,“ segir Móheiður Obel.
Aðstandendur viðburðanna á Óðinstorgi eru þær Móheiður Obel, Katrín Erlingsdóttir og Jóna Heiða Sigurlásdóttir en þær eiga það sameiginlegt að hafa unnið með börnum í gegnum tíðina. Markmið viðburðanna er að flétta saman mannlíf og að nýta stundirnar með börnum, en allir aldurshópar eru velkomnir.
Dagskráin byrjar á mánudag með leikjadag. Þá verður farið í útileiki og fleira tilheyrandi. Á þriðjudag heldur dagskráin áfram með verkefni sem heitir „Fiskar á þurru landi“ en þá fá börnin að teikna og gera fiska úr plastefni.
Fiskarnir eiga að endurspegla fjölbreytileika barna og fólks í borginni og verk barnanna verða sýnd á Menningarnótt. Dagarnir verða margbreytilegir með bátagerð, vefdag, boladag og fleira.

