Skoðun

Disneyland í Dimmuborgum...

Unnsteinn Manuel Stefánsson skrifar
Ágæta Borgarstjórn og íbúar Reykjavíkur.

Í Reykjavík er fjöldi gæða tónlistartengdra viðburða ótrúlegur þó að maður miði ekki einu sinni við fólksfjölda. En tónleikastaðirnir víkja nú smátt og smátt fyrir markaðsöflunum. Það er ekki óeðlilegt að þetta gerist miðað við vaxandi áhuga á Íslandi. Áhuga sem skilar sér í stækkandi hópi ferðamanna sem við þurfum að koma til móts við með fleiri gistirýmum. En menning og listir ættu ekki að þurfa víkja fyrir ferðamönnum. Ekki frekar en náttúruperlur eða annað sem ferðamenn koma hingað til að sjá og upplifa.

Ef það verður ekkert eftir að sjá eða upplifa, hvers vegna ættu ferðamenn að koma? Til að skoða Hótelþorpið Hundraðogeinn? Eða gæti það verið að ört stækkandi hluti ferðamanna á Íslandi sé hingað kominn til að upplifa menninguna og grasrótina?

Ég hef áhyggjur af stöðunni í miðbænum ef allir sem eiga hagsmuna að gæta setjast ekki bráðum við sama borð og ræða saman á skapandi hátt. Hvort sem það eru íbúar, yfirvöld, listamenn, verslunarfólk, veitingafólk og síðast en ekki síst fjárfestar. Við þurfum að ræða hvernig okkar nánasta umhverfi þjóni okkur og okkar gestum sem best. Það væri jafnvel ekki vitlaust að fá fulltrúa ferðamanna inn á þennan fund.

Fyrir mér jaðrar það við náttúruspjöll þegar listrænir hópar og/eða menningarlegar kreðsur fá ekki að njóta sín. Við myndum ekki steypa yfir Geysi til að byggja hótel. Það væri jafnfáránleg hugmynd og að byggja Disneyland í Dimmuborgum. Þótt við gætum mögulega grætt á því.



Plan B

Í seinustu viku kom ég með hugmynd að tónleikastað sem gæti leynst í Hörpu, hrárri sal og byggðan á öðrum formerkjum en aðrir salir í húsinu.

Stærðin og leigan á þeim sölum sem fyrir eru í húsinu er ekki viðráðanleg fyrir 80% þeirra hljómsveita sem eru starfandi á Íslandi og eru með fleiri en 500 aðdáendur á Facebook. Fyrir utan það að vera of dýr í leigu fyrir okkar minni bönd er t.d. Kaldalón, minnsti salurinn, sitjandi salur. Það hentar auðvitað ekki fyrir unga og dansglaða aðdáendur okkar nýjustu hljómsveita. Í þessum hugsanlega sal þyrftu hljómsveitir aðeins að greiða laun tæknimanna.

Það þótti mér skemmtileg leið þegar við spiluðum á Organ/Batteríinu í gamla daga og borguðum hljóðmanni húsins, Óla, fasta og sanngjarna upphæð strax eftir giggið. Þess má geta að Óli heitir í dag Ólafur Arnalds og er vel þekktur tónlistarmaður úti um allan heim.

Litlar hljómsveitir hafa ekki efni á leigu á húsnæði eða hljóðkerfum eins og er ætlast til í dag í Hörpu, Tjarnarbíói og Iðnó. Þessi sérstaki salur þyrfti að vera rekinn eins og flestir einkareknir tónleikastaðir þar sem rekstrarkostnaður greiðist með tekjum af veitingasölu.

Ég hef heyrt gagnrýnisraddir um það að hafa allt tónleikahald borgarinnar í sama húsinu. Auðvitað væri best ef Nasa fengi að standa. Hins vegar snýst umræðan um tónleikastaði of mikið um að vera með eða á móti. Það hefur ekki skilað neinu. Enda hentar það peningaöflunum vel ef fólk vinnur ekki saman. Það er aragrúi af góðu fólki að bjarga Nasa. Fólk sem ég treysti til að taka þann slag. Ég vil hins vegar nýta tækifærið á sama tíma og hugsa um plan b. Kostirnir við að hafa svona stað í Hörpu eru nokkuð margir. Þar vega þyngst tæknilegar lausnir, reynt starfsfólk og yfirbyggingin sem er þegar til staðar í húsinu. En ef ekki í Hörpu þá hljótum við að finna annan stað.



Hvað þarf til?

En hvað er það sem gerir stað að hentugum tónleikastað?

Í fyrsta lagi þarf staðurinn að vera niðri í miðbæ, enda er veitingasala lykilatriði í rekstri skemmtistaða.

Í öðru lagi þarf staðurinn að vera tæknilega búinn þannig að komið sé til móts við þær lágmarkskröfur sem flestar hljómsveitir gera til að geta flutt tónlist sína af tilætluðum krafti. Hvort sem það er góður hljómburður eða nægjanleg lofthæð svo að ljós fái að njóta sín.

Í þriðja lagi þurfa bókarar staðarins vinnufrið til að bóka skemmtileg atriði og halda spennandi viðburði í friði fyrir fólki föstu í íslenska draumnum í leit að skjótum gróða í hvert skipti sem koma nýjar tölur um fjölda ferðamanna á Íslandi.

Er ekki þess virði að athuga hvort það sé hægt að bæta við sal fyrir grasrótina í tónlistarhús allra landsmanna? Ég vil taka það fram að ég veit ekkert um arkitektúr og enn minna um rúmfræði. En ég veit hins vegar heilmikið um tónleikastaði í hinum ótrúlegustu rýmum og hef líka skilning á fjármálum minni hljómsveita.

Ég vil trúa því að nægilega stórt frjálst rými sé til staðar í Hörpu. Á Sónar-hátíðinni í Hörpu síðastliðinn vetur var t.d. hluta bílakjallarans breytt í diskótek. Það gaf góða raun og ég vona að fólk geti komið með frumlegar lausnir í þessum efnum. Ykkar borgarstjórn er óhefðbundin að því leytinu til að innan ykkar raða leynist fleira skapandi fólk en hingað til. Þess vegna bið ég ykkur um að hjálpa, en líka að skapa.




Skoðun

Sjá meira


×