Skoðun

Samningur um sumarlestur

Sigþrúður Gunnarsdóttir skrifar
Það tíðkast sums staðar að senda skólabörn út í sumarið með lista yfir bækur sem þau ætla sér að lesa yfir sumarið. Með því vilja kennarar tryggja að lestrarfærnin sem búið er að byggja upp með ærinni fyrirhöfn allan veturinn tapist ekki niður í sumarfríinu.

Það þarf nefnilega að æfa lesturinn rétt eins og aðra færni, ætli maður að halda henni við eða jafnvel gera betur.



Úti í sól, uppi í sófa, í bíl og á strönd

Það er líka sjálfsagt að nýta langa sumardaga og nætur til að lesa góðar bækur, hvort sem er úti í sólinni eða uppi í sófa á rigningardögum.

Bókin á heima í bílnum á ferðalaginu, tjaldinu og húsbílnum, handfarangrinum í flugvélinni, uppi á öræfum og á erlendri sólarströnd.



Semjið við smáfólkið

Nú eru um tveir mánuðir þar til skóladyrnar verða opnaðar að nýju svo það er ekki seinna vænna að setjast niður með smáfólkinu og gera samning: hvað á að lesa margar bækur í sumarfríinu?

Síðan er upplagt að kíkja í bókabúð eða á bókasafnið og sjá hvað er í boði.



Líflegri en margan grunar

Barnabókaútgáfan er líflegri en margan grunar svo auðveldlega má finna eitthvað nýtt og spennandi fyrir alla aldurshópa, svo ekki sé talað um þann gríðarlega fjársjóð sem liggur í eldri bókum. Verðlaun fyrir góða ástundun geta til dæmis verið nýjasta bókin eftir uppáhaldshöfundinn um leið og hún kemur út – nú eða gómsætur bragðarefur úr ísbúðinni.

Ekkert býr barn betur undir lífið en góð lestrarfærni og hún fæst ekki nema með ástundun. Það stórkostlega er að sú ástundun getur falist í því að þvælast um með nornum og galdramönnum, eltast við bófa og hrekkjusvín, fljúga um á drekabaki eða glíma við tröllskessur. Góða skemmtun!




Skoðun

Sjá meira


×