Innlent

Ítreka andstöðu við áform um virkjanir

Svavar Hávarðsson skrifar
Fossinn er í Bárðardal og umkringdur stuðlabergi. Hann er um 20 metra hár.
Fossinn er í Bárðardal og umkringdur stuðlabergi. Hann er um 20 metra hár.

Heimamenn í Þingeyjarsveit leggjast gegn hugmyndum um virkjanir í Skjálfandafljóti. Landvernd fagnar afstöðu sveitarfélagsins og hvetur sveitarstjórn til að styðja friðlýsingu fljótsins. Norðurorka hugsar framhaldið

Sveitarstjórnin ítrekaði þessa afstöðu sveitarfélagsins í bókun um miðjan maí, en tilefnið var bréf frá Norðurorku hf. þar sem óskað var eftir afstöðu sveitarstjórnarinnar til áframhaldandi rannsókna við Hrafnabjörg í Bárðardal. Sveitarstjórn er jákvæð gagnvart rannsóknum á svæðinu en bendir á stefnumótun sveitarfélagsins í aðalskipulagi árin 2010 til 2022 og segir hana standa óbreytta. Það sé stefna Þingeyjarsveitar að nýta vatnsafl í sveitarfélaginu til hagsbóta fyrir íbúa „en sveitarfélagið er á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót“.

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, segir fyrirtækið horfa til rannsókna á efri hluta vatnasviðs Skjálfandafljóts, við Hrafnabjörg og þar fyrir ofan. „Við þekkjum afstöðu þeirra en eins að þau setja sig ekki upp á móti rannsóknum, eins og þau ítreka í bókun. Svar okkar um hvað við gerum kemur innan tíðar,“ segir Helgi og játar því að málið snúist um hvort rannsóknir verði gerðar eða ekki. „Ég trúi því að við leggjum okkar á vogarskálarnar hvað varðar rannsóknir á svæðinu; virkjun er síðari tíma mál.“

Landvernd sendi frá sér ályktun þar sem segir að við gerð 2. áfanga rammaáætlunar hafi mat faghóps verið að Skjálfandafljót væri á meðal verðmætustu svæða landsins með tilliti til landslags og víðerna. Þá minnir Landvernd á að með tilkomu nýrra náttúruverndarlaga sé mögulegt að friðlýsa heil vatnakerfi og hvetur Þingeyjarsveit til að styðja hugmyndir um friðlýsingu Skjálfandafljóts.

„Ég hef áður sagt að hugmyndir um virkjun Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti hljóti að verða grafskriftin á leiði gjörnýtingarstefnu liðinnar aldar í virkjanamálum. Og ég fagna því mjög að nú virðist hún ekki ætla að verða raunin. En það segir okkur mikið um hugarfarið hjá verkfræðistofunum og orkufyrirtækjunum að undirbúningur virkjunarinnar hafi þó komist þetta langt áður en Þingeyingar sögðu hingað og ekki lengra,“ segir Guðmundur H. Guðmundsson, formaður Landverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×