Innlent

Fleiri útköll vegna fjölgunar ferðamanna

Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir björgunarsveitir standa í ströngu við að sinna ferðamönnum á þjóðvegum landsins yfir vetrarmánuðina.
Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir björgunarsveitir standa í ströngu við að sinna ferðamönnum á þjóðvegum landsins yfir vetrarmánuðina. Fréttablaðið/Vilhelm

„Verkefnum björgunarsveita hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár,“ segir Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Hann segir fjölgun ferðamanna, strandveiðar og vont veður skýra fjölgunina.

Útköll vegna norðurljósaferða

„Við höfum verið að eltast við ótal ferðamenn í norðurljósaferðum í vetur svo dæmi séu tekin. Veðrið kemur ferðamönnum stöðugt á óvart,“ segir Hörður.

Björgunarsveitir hafa líka staðið í ströngu undanfarin sumur. Hálendisvaktin var sett á laggirnar árið 2006 og hefur aðgerðum á hálendinu fjölgað mikið síðan, þær fóru úr 622 sumarið 2010 í 1917 árið 2012. „Okkur óraði ekki fyrir því þegar við byrjuðum á hálendisvaktinni að verkefnin yrðu svona mörg,“ segir Hörður, sem segir fjölgun ferðalanga á hálendinu skýra annríki björgunarsveitanna. „Það hefur alltaf verið hlutverk björgunarsveita að sinna slysavörnum og menn sameinuðust í því að gera landið öruggt til heimsóknar en hefur kannski þróast út í það að við séum að bjarga fólki upp úr brunnum í stað þess að byrgja þá,“ segir Hörður.

Hann segir fræðslu til ferðamanna lykilatriði. „Stór hluti af sjarmanum við Ísland er hve náttúran er ósnortin en það þýðir auðvitað að enginn er til aðstoðar ef ferðalangur í óbyggðum lendir í vanda. Og vandamálið er að einföld atriði eins og lokaður vegur eða ófærð skila sér oft ekki til ferðamanna.“

Hörður segir ljóst að niðurskurður til löggæslu skýri að hluta til aukið álag á björgunarsveitir. „Það verður að horfast í augu við þá staðreynd og líka að vera ljóst að við getum ekki sinnt löggæslu, það er ekki okkar hlutverk.“

Tekjuskerðing vandamál

Á sama tíma og útköllum hefur fjölgað hafa tekjur björgunarsveitanna dregist saman. „Það er ekkert launungarmál að við höfum orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu síðan 2008,“ segir Hörður. Megintekjulind félagsins rennur úr félaginu Íslandsspili sem rekur spilakassa og fjármagnar einnig SÁÁ og hafa þær tekjur dregist saman. „Við verðum að leita nýrra leiða, það er ljóst,“ bætir hann við en félagið stendur fyrir landssöfnun í sjónvarpinu annað kvöld og vonast til þess að fá góðar undirtektir.

Björgunarsveitir stóðu í ströngu við björgun sauðfjár í haust þegar óveður skall á fyrir norðan og lögðu þá bændum lið. Strandveiðar hafa líka kallað á margvísleg verkefni og Íslendingar á faraldsfæti hafa líka þurft á aðstoð að halda. 4.000 manns eru á útkallsskrá björgunarsveitanna og segir Hörður að mikill áhugi sé á að starfa með sveitunum. „Nýliðun er ekki vandamál hjá okkur, sem betur fer. Það er mikil endurnýjun og undanfarin ár hefur konum fjölgað mikið, sem er mjög jákvætt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×