Innlent

Hafna úrskurði um farþega í slöngubáti

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hvalaskoðunarbátur Gentle Giants tekur 24 farþega, segir framkvæmdastjórinn, en farþegarnir mega aðeins vera tólf samkvæmt reglum Siglingastofnunar.
Mynd/Gentle Giants
Hvalaskoðunarbátur Gentle Giants tekur 24 farþega, segir framkvæmdastjórinn, en farþegarnir mega aðeins vera tólf samkvæmt reglum Siglingastofnunar. Mynd/Gentle Giants

„Við munum að sjálfsögðu kanna dómstólaleiðina,“ segir Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants sem fær ekki að fjölga farþegum á slöngubát sínum úr tólf í sextán. Stefán segir Gentle Giants hafa notað RIB-bátinn Ömmu Siggu í tvö ár við hvalaskoðun á Húsavík. Viðlíka bátar eru í notkun í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi og Ísafirði. Gentle Giants kærði ákvörðun Siglingastofnunar um að heimila ekki sextán farþega um borð í stað tólf og að mæla fyrir um að farþegar væru í einangrandi flotbúningum þegar sjór væri kaldastur, það er utan sumartímabilsins 1. júní til 30. september.

Gentle Giants vildi að miðað yrði við tímabilið 15. apríl til og með 31. október í staðinn. Siglingastofnun sagði það ekki geta talist vera „yfirdrifin krafa“ að farþegarnir klæddust einangrandi flotbúningum utan fyrrnefnds tímabils. „Líkt og fram kemur í ákvörðun Siglingastofnunar er ástæðan fyrir þessari kröfu meðal annars sú að umræddir RIB-bátar nái miklum hraða og því sé mikil vindkæling, farþegar sitji í opnu rými undir berum himni, fríborð sé mjög lágt og meiri hætta á að farþegar geti fallið fyrir borð,“ segir í úrskurði innanríkisráðuneytisins.

„Við teljum að við höfum unnið sigur í þessu máli vegna þess að með bréfi frá ráðuneytinu til Siglingastofnunar eru skýr fyrirmæli um að stofnunin endurskoði sínar vinnureglur varðandi þessa báta,“ segir Stefán Guðmundsson. „Það er eins og ráðuneytið hafi viljað leyfa stofnuninni að halda andlitinu í kærumálinu sjálfu en sé að segja um leið að reglurnar virki ekki og fyrirskipi að endurskoða þær án tafar.“ Að sögn Stefáns er um úrslitaatriði að ræða fyrir þá sem reka RIB-bátana að fá umbeðnar tilslakanir. „Það er sjálfhætt fyrir okkur ef þetta verður endanleg niðurstaða,“ segir hann um áhrif takmarkananna sem settar voru á í byrjun mars. Notkun einangrandi flotbúninga sé gríðarleg kvöð vegna umstangs sem þeim fylgi. „Það má líkja þessu við að farþegar í flugvélum þyrftu að spenna á sig fallhlíf um leið og þeir kæmu í vélina og prófa hana einu sinni í ferðinni og svo þyrfti flugfélagið að sjá um að henni væri pakkað saman og hún gerð klár í næstu ferð,“ segir Stefán, sem kveður framhald málsins algjörlega fara eftir viðbrögðum Siglingastofnunar á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×