Lífið

Undirbýr hárbók fyrir Norðurlöndin

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Ný bók Theodóra Mjöll Skúladóttir Jack , lengst til hægri, var fengin til að gera hárbók fyrir danska fyrirtækið HH Simonsen sem er ætluð fyrir Norðurlandamarkað. Hér er hún ásamt sminkunni Fríðu Maríu í myndatökum fyrir nýju bókina.Fréttablaðið/valli
Ný bók Theodóra Mjöll Skúladóttir Jack , lengst til hægri, var fengin til að gera hárbók fyrir danska fyrirtækið HH Simonsen sem er ætluð fyrir Norðurlandamarkað. Hér er hún ásamt sminkunni Fríðu Maríu í myndatökum fyrir nýju bókina.Fréttablaðið/valli

„Það er mjög gaman að vera að gera nýja bók en þessi hefur verið í undirbúningi síðan í janúar,“ segir hárgreiðslukonan Theodóra Mjöll Skúladóttir Jack, sem er þessa dagana í myndatökum fyrir nýja bók sem er tileinkuð hári og hárgreiðslum.

Það er danska hárfyrirtækið HH Simonsen sem gefur bókina út en eigendur þess heilluðust af fyrri bók Theodóru, Hárið, sem sló í gegn á Íslandi fyrir jólin.

„Þeir sáu bókina mína er þeir voru hér á landi og höfðu samband við mig. Þetta er mjög gott tækifæri fyrir mig og gaman að vera fengin til verksins. Smá meiri pressa að vera að vinna fyrir einhvern annan en sjálfan sig eins og þegar ég gerði Hárið,“ segir Theodóra en bókin er ætluð fyrir Norðurlandamarkað og skartar um tuttugu hárgreiðslum af ýmsum toga.

Þessa dagana er Theodóra í stúdíói ásamt ljósmyndaranum Sögu Sigurðardóttur, sminkunni Fríðu Maríu Harðardóttur og stílistanum Hildi Sumarliðadóttur. „Saga tók allar myndirnar fyrir síðustu bók og hún flaug sérstaklega heim frá London til að gera þetta verkefni með mér.

Það skiptir miklu máli að vera með gott teymi á bak við sig. Auk bókarinnar er hér tökulið að taka upp myndbönd sem verða líklega aðgengileg á netinu samhliða útgáfu bókarinnar.“

Velgengni bókarinnar Hárið hefur verið mikil en bókin hefur verið á topp 20 á metsölulistum síðan í janúar. Theodóra sér þó ekki fram á aðra bók í bráð því hún er einnig í námi í vöruhönnun hjá Listaháskóla Íslands. Hún er frekar með á bak við eyrað að gefa Hárið út erlendis.

„Það er á langtímaplaninu en maður þarf að fara í gegnum mikinn frumskóg til að það geti orðið að veruleika. Það tekur tíma en væri mjög gaman ef af yrði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.