Lífið

Svíarnir leggja allt undir í Eurovison

Kristín Inga Jónsdóttir fór með þremur vinkonum á undankeppni Eurovision í Malmö.
Kristín Inga Jónsdóttir fór með þremur vinkonum á undankeppni Eurovision í Malmö. Fréttablaðið/vilhelm

„Þetta var frábær upplifun og stemmningin í höllinni var vægast sagt rosaleg. Svíar leggja greinilega allt undir því þeir eru líka með hrikalega flott lag í keppninni í ár,“ segir Kristín Inga Jónsdóttir sem horfði á seinni undankeppni Eurovision í Malmö Arena.

Kristín Inga sigraði í karókíkeppni háskólanna í byrjun apríl og voru sigurverðlaunin ferð fyrir þrjá á undankeppnina. Kristín Inga og vinkonur hennar sungu hraustlega með Eyþóri Inga Gunnlaugssyni er hann steig á svið og söng lagið Ég á líf.

„Við vinkonurnar fjárfestum í dónalega stórum íslenskum fána áður en við fórum út og hvöttum okkar mann rækilega áfram, sungum hraustlega með og gerðum allt vitlaust í stúkunni. Og þvílík gleði að komast upp úr undankeppninni. Evrópubúar eru greinilega sjúkir í lagið,“ segir Kristín Inga sem telur þó framlag Svía sigurstranglegast aftur í ár.

„Mér finnst Svíþjóð ansi sigurstranglegt aftur í ár, en lagið frá Rúmeníu er í algjöru uppáhaldi hjá mér. Þvílík rödd sem maðurinn hefur!“

Kristín Inga er stödd í Kaupmannahöfn ásamt vinkonum sínum og horfir þar á aðalkeppnina í kvöld. „Ég horfði á keppnina hér í Köben og svo ætlum við að skella okkur út á lífið með Dönunum,“ segir hún að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.