Lífið

Sprettreið um hverfið

Böðvar Guðjónsson, talsmaður Kex hostels, ætlar sjálfur að taka þátt í sprettreið sem fram fer í júní.
Böðvar Guðjónsson, talsmaður Kex hostels, ætlar sjálfur að taka þátt í sprettreið sem fram fer í júní. Fréttablaðið/valli

„Þetta er hjólasprettreið og keppt er í tveimur flokkum; 15 kílómetra leið sem nefnist Fransbrauð og 30 kílómetra leið sem kallast Rúgbrauð,“ segir Böðvar Guðjónsson, talsmaður Kex hostels, um sprettreið sem farin verður þann 15. júní.

Hjólað verður um Skuggahverfið í Reykjavík og keppt í kvenna- og karlaflokki. Kex hostel, Kría Cycles, Reiðhjólaverzlunin Berlin og fleiri aðilar standa að sprettreiðinni og hjólað verður sem leið liggur frá Barónsstíg, eftir Skúlagötu og eftir Hverfisgötunni aftur að upphafspunkti. Hringurinn er um 1,5 kílómetri að lengd og þurfa keppendur að fara hann nokkrum sinnum til að ná tilætluðum kílómetrafjölda.

„Þótt keppnin sé stíluð inn á fólk sem stundar hjólreiðar og er á svokölluðum fishjólum, þá geta allir tekið þátt,“ segir Böðvar, sem hyggur sjálfur á þátttöku.

„Ég er ekki mikill hjólreiðamaður en á það til að taka sprettinn inn á milli. Ég treysti mér fullkomlega til að hjóla fimmtán kílómetrana og ætla að gera það.“

Fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson hannar sigurverðlaunin sem verða fallegar treyjur. Að keppni lokinni verður slegið til veislu í Vitagarðinum sem er aftan við Kex hostel. Skráning í keppnina hófst í gær og fer fram á Kexinu og vefsíðunni Kexland.is.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.