Lífið

Mew og Múm spila á Ja Ja Ja

Jonas Bjerre og félagar í Mew spila á tónlistarhátíðinni Ja Ja Ja.
Jonas Bjerre og félagar í Mew spila á tónlistarhátíðinni Ja Ja Ja. nordicphotos/getty

Norræna tónlistarhátíðin Ja Ja Ja verður haldin í fyrsta sinn í London 8. og 9. nóvember. Danska hljómsveitin Mew og hin íslenska Múm koma báðar fram. Þá hefur verið ákveðið að Copenhagen Documentary Festival verði samstarfsaðili og velji heimildarmyndir sem þar verða sýndar. Hátíðin er unnin í samstarfi við Roundhouse, sem er menningarhús í hverfinu Camden í London og er ætlað fyrir 3.500 áhorfendur.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri Nomex, stýrir hátíðinni. Hún segir hana gott tækifæri til að ýta undir þann áhuga sem Bretar sýna Norðurlöndum og norrænni menningu. „Ja Ja Ja hefur fengið mjög góðar viðtökur sem klúbbakvöld. Roundhouse er góður samstarfsaðili til að þróa hátíð með. Húsið er sérstakt og fólkið sem vinnur þarna hefur mikinn áhuga og skilning á menningarlegum straumum og stefnum,“ segir Anna Hildur.

„Það er líka gaman að fá tækifæri til að tengja saman ólíka menningarþætti, tónlist, kvikmyndir og matargerð, þannig að gestir fái að smakka, hlusta og horfa á það sem kemur frá Norðurlöndum á einum og sama stað.“

Miðasala á hátíðina hefur verið opnuð hjá Roundhouse. -fb Ja Ja Ja-hátíðin var formlega tilkynnt í Roundhouse á þriðjudagskvöld þar sem íslenski kórinn LYRIKA söng útgáfu af nýjasta lagi Mew.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.