Hollywood-stjörnurnar Chris Pine og Amanda Seyfried hafa verið ráðin í aðalhlutverkin í kvikmyndinni Z For Zachariah. Framleiðendur eru íslenska fyrirtækið Zik Zak, Palomar Pictures sem er í eigu Sigurjóns Sighvatssonar, leikarinn Tobey Maguire og Matthew Plouffe.
Breski leikarinn Chiwetel Ejiofor hefur einnig bæst í leikarahópinn. Maguire átti að leika hlutverkið sem Pine var ráðinn í en ekkert varð af því. „Við ákváðum að hætta við það. Okkur fannst það henta betur að það væri önnur týpa í því hlutverki,“ segir Skúli Malmquist hjá Zik Zak, sem er mjög ánægður með að hafa fengið Pine í myndina. Hann er einn af heitustu ungu leikurunum í Hollywood um þessar mundir.
Nýjasta mynd hans er Star Trek Into Darkness en sú næsta, Jack Ryan, verður frumsýnd um jólin vestanhafs. Amanda Seyfried sló í gegn í Mamma Mia!. Nú síðast lék hún í annarri söngvamynd, Les Misérables.
Z For Zachariah er byggð á bók Roberts O'Brien og fjallar um unglingsstúlku sem býr ein á sveitabæ í eina dalnum þar sem hægt er að anda sér heilbrigðu lofti eftir að kjarnorkustyrjöld hefur gengið yfir. Þegar tveir ókunnugir menn birtast breytist heimur hennar til mikilla muna. Búið er að fjármagna myndina að fullu og hefst framleiðslan í ágúst.
Réðu Chris Pine í stað Tobey Maguire
